Innlent

Ungir kjósendur tóku við sér

Lovísa Arnardóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á kjördag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á kjördag. Vísir/Anton

Aukin kosningaþátttaka var í öllum aldurshópum í alþingiskosningum í október, en mest var aukningin á meðal 18-19 ára, eða fyrstu kjósenda. Þar hækkaði hlutfall um 9,5 prósentustig, eða úr 68,7 prósentum árið 2016 í 75,2 prósent árið 2017. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands um alþingiskosningarnar 28. október síðastliðin.

Mest var kosningaþátttaka fyrstu kjósenda á höfuðborgarsvæðinu. Talsvert meiri þátttaka var meðal kvenna en karla í þessum aldursflokki, en sem dæmi kusu 82 prósent kvenna á aldrinum 18-19 ára í Reykjavíkurkjördæmi suður en aðeins tæp 74 prósent karla á sama aldri í sama kjördæmi.

Kosningaþátttaka jókst lítillega frá síðustu alþingiskosningum en hefur þó verið svipuð í síðustu þrennum kosningum. Nú var kjörsókn 81,2 prósent á öllu landinu. Fyrir það var kosningaþátttaka meiri, eða í kringum 85 til 87 prósent.

Kosningaþátttaka var meiri á landsbyggðinni en í Reykjavík, en ef allt höfuðborgarsvæðið er borið saman við landsbyggð má sjá svipaða þátttöku, eða nærri 81%. Kosningaþátttaka var mest í Norðausturkjördæmi en minnst í Reykjavíkurkjördæmi norður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.