Innlent

Tómas Guðbjartsson snýr aftur úr leyfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítala.
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítala. MYND/LANDSPÍTALI
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítala, mun snúa aftur til vinnu eftir áramót. Hann var sendur í leyfi frá störfum í síðasta mánuði eftir að sérfræðinganefnd birti niðurstöður sínar eftir úttekt á störfum íslenskra heilbrigðisstarfsmanna í tengslum við Plastbarkamálið svokallaða.



Rektor Háskóla Íslands (HÍ) og forstjóri Landspítalans (LSH) skipuðu fyrir rúmu ári nefnd til að rannsaka mál Andemariams Beyene. Árið 2011 undirgekkst hann aðgerð á Karolinska sjúkrahúsinu (KS) þar sem græddur var í hann plastbarki. Sænskar rannsóknir hafa varpað ljósi á það að farið var á svig við lög og reglur þar ytra. Lífi sjúklinga hafi verið stefnt í hættu á kerfisbundinn hátt og að enginn vísindalegur grundvöllur hafi verið fyrir aðgerðinni. Var nefndinni hér heima ætlað að varpa ljósi á aðkomu starfsmanna HÍ og LSH að málinu.

Sjá einnig: „Þetta mál gæti verið byrjunin á einhverju miklu meira milli Íslands og Karolinska“



Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir í samtali við Vísi að málinu í heild sinni sé ekki lokið en starfsmannamálin séu afgreidd.

„Það er heilmikið annað sem við teljum að muni koma upp þegar við höldum áfram að rýna í þetta efni,“ segir Anna.

Fyrst var greint frá þessu á Mbl.is.



Sjá einnig: Yfirlýsing frá Tómasi - Harmar að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu



Í stöðuskýrslu sem Anna Sigrún og Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, skiluðu nýverið og birt var í gær, kemur fram að Landspítalinn hafi gripið til ýmissa aðgerða vegna tillagna frá áðurnefndri sérfræðinganefnd.



Anna segir þó að því betur sem rýnt sé í skýrsluna komi í ljós að ýmiss atriði sem „við viljum laga hjá okkur eða skerpa á. Þetta er risastórt mál sem við þurfum að læra af.“

„Áherslan að okkar hálfu er sú að við munum halda áfram að vinna með málið, skoða okkar ferla og samskipti við Karolinska,“ segir Anna.

Óskar Einarsson, lungnalæknir, var einnig sendur í leyfi í síðasta mánuði en hann var meðhöfundur Tómasar að grein sem unnin var upp úr niðurstöðum á rannsóknum á Beyene. Hann er þegar snúinn aftur til starfa.


Tengdar fréttir

Viðbætur Tómasar við tilvísun sjúklings ekki í samræmi við læknalög

Viðbætur Tómasar Guðbjartssonar læknis á tilvísun fyrir sjúkling sem fór í plastbarkaígræðslu á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð að beiðni ítalska læknisins Palo Macchiarini voru ekki í samræmi við ákvæði þágildandi læknalaga. Þetta er mat rannsóknarnefndar um plastbarkamálið en skýrsla nefndarinnar kom út í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×