Innlent

Samfylkingin orðin næststærst

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Anton Brink
Samfylkingin er orðinn næststærsti stjórnmálaflokkur landsins, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn mælist með 16,7 prósenta  fylgi en fékk 12,1 prósent atkvæða í alþingiskosningunum í lok október. Greint var frá niðurstöðu Þjóðarpúlsins í kvöldfréttum RÚV.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi í þjóðarpúlsinum, 24 prósent. Flokkurinn minnkar við sig fylgi en hann hlaut 25,3 prósent í kosningunum.

Vinstri græn mælast með 16,1 prósent, örlítið minna en í kosningunum þar sem flokkurinn fékk 16,9 prósent.

Þá mælast bæði Píratar og Framsókn með 10,4 prósent fylgi. Píratar fengu 9,2 prósent í kosningunum en Framsókn 10,7 prósent.

Viðreisn bætir við sig fylgi og mælist með 7,1 prósent miðað við 6,8 prósent í kosningunum.

Miðflokkurinn tekur nokkuð stóra dýfu síðan í kosningunum, var þá með 10,9 prósent, en mælist nú með 6,8 prósent.

Flokkur fólksins er með 6,5 prósent en mældist með 6,9 prósent í kosningunum. Aðrir flokkar mælast með rúm 2 prósent.

Könnunin var gerð dagana 8.-30. nóvember, þegar stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stóðu yfir. Úrtak könnunarinnar var fjögur þúsund manns og svarhlutfall var 57,8 prósent.


Tengdar fréttir

Skráningar í VG tekið kipp eftir lyklaskiptin

Á annað hundrað manns hafa sagt sig úr Vinstri grænum síðan ákvörðun var tekin um að hefja stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×