Innlent

Áætlunarflug til Skagafjarðar hafið

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Áætlunarflug hófst á nýjan leik til Sauðárkróks á föstudag eftir nokkurra ára hlé. Ef vel gengur gæti áætlunarflug til Skagafjarðar fest sig í sessi en það mun koma í ljós næsta sumar.

Um er að ræða tilraunaverkefni í sex mánuði og ræðst framhaldið af eftirspurn en verkefnið er styrkt meðal annars af hinu opinbera. Það er flugfélagið Ernir sem sér um flugið. Hörður Guðmundsson rekstrarstjóri flugfélagsins Ernis segir að ef vel gengur er líklegt að áætlunarflug verði fest í sessi og að aukið verði í ferðafjöldann.

„Það eru ekki nema fjórar ferðir í viku til að byrja með en við horfum til næsta sumars og aukinn ferðamannastraum og fleira þannig að okkur lýst bara vel á þetta og við faum góðan meðbyr,“ segir Hörður Guðmundsson, rekstrarstjóri flugfélagsins Ernis.

Fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á Norðurlandi hafa þegar tekið vel við sér og hafa bókanir farið vel af stað. Hörður segir flugvöllinn í Skagafirði einn sá besta á landinu.

„Ég mundi nú bara segja það svona af okkar reynslu, búin að fljúga hér í tæp fimmtíu ár á Íslandi, þá er Skagafjörður með hægari stöðum til að koma inn, bæði til lendingar og brottfarar," segir Hörður.

Forseti Sveitarstjórnar Skagafjarðar segir samgöngubótina hafa mikla þýðingu fyrir íbúa og starfsemi á norðurlandi vestra.

„Svo náttúrulega fyrir ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki að opna hlið hér norður í land og á okkar svæði til þess sækja okkur heim,“ sagði Sigríður Svavarsdóttir, forseti Sveitarstjórnar Skagafjarðar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×