Innlent

Tveir þingmenn heltast úr lestinni

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson greiddu atkvæði gegn málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gærkvöldi.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson greiddu atkvæði gegn málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gærkvöldi. Vísir/Anton

„Ég er búinn að gefa upp að ég styðji ekki málefnasamninginn en svo verðum við með þingflokksfund á morgun þar sem þetta verður til lykta leitt varðandi stjórnarsamstarfið í heild sinni,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, en hann og Rósa Björk Brynjólfsdóttir samflokksmaður hans greiddu atkvæði gegn málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gærkvöldi.

Aðspurður segist Andrés ekki geta svarað því hvort hann muni verja nýja ríkisstjórn vantrausti eða einstaka ráðherra hennar. Ekki liggur því fyrir hversu góðan meirihluta hin nýja stjórn hefur og hvort þingmenn að baki henni eru 33 eða 35.

Mikill titringur var á flokksráðsfundi Vinstri grænna en hann stóð í tæpar fimm klukkustundir í gær og lauk ekki fyrr en rétt fyrir tíu í gærkvöldi. Fimmtán flokksráðsmenn greiddu atkvæði gegn samningnum en hann var samþykktur með 75 atkvæðum. Ónotum var beint að Rósu Björk og Andrési Inga úr ræðustól fundarins sem fór mjög illa í marga fundarmenn. Kosning um málefnasamninginn var skrifleg en óskað hafði verið eftir því fyrir fundinn.

Atkvæðagreiðsla í hinum flokkunum fór fram með handauppréttingu. Samningurinn var samþykktur samhljóða á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins klukkan tíu í gærkvöldi. Fyrr í gær samþykktu Sjálfstæðismenn samninginn einróma á klukkustundarlöngum fundi í Valhöll.

„Það var algjör eining um þetta og almenn ánægja,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson um fund Framsóknarmanna í gær. Hann segist ekki hafa áhyggjur af þeim þingmönnum VG sem samþykktu ekki samninginn.

Fundir verða í þingflokkum stjórnarflokkanna fyrir hádegi í dag og ríkisráðsfundir síðdegis í dag þar sem ráðherrum fráfarandi stjórnar verður veitt lausn og nýir ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur skipaðir. Að loknum ríkisráðsfundi fara nýskipaðir ráðherrar til sinna ráðuneyta og taka við lyklavöldum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.