Innlent

Þrír menn ákærðir fyrir brot gegn náttúruvernd

Birgir Olgeirsson skrifar
Reiknað er með að aðalmeðferð í málinu fari fram í Héraðsdómi Vestfjarða á Ísafirði í janúar næstkomandi.
Reiknað er með að aðalmeðferð í málinu fari fram í Héraðsdómi Vestfjarða á Ísafirði í janúar næstkomandi. Vísir/Pjetur
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur ákært þrjá menn fyrir brot gegn náttúruvernd og auglýsingu um friðland á Hornströndum. Eru mennirnir sakaðir um að hafa komið í friðlandið á Hornströndum, nánar til tekið í Hornvík, 28. maí árið 2016, og dvalið þar í vikutíma án þess að tilkynna Umhverfisstofnun um ferðalag sitt.

Einn af mönnunum þremur er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa á sama tíma haft meðferðis skotvopn án heimildar sýslumanns. 

Krefst lögreglustjórinn þess að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Samkvæmt refsiábyrgð laga um náttúruvernd getur það varðar mann sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef hann framkvæmir eða aðhefst í heimildarleysi nokkuð það sem leyfis eða undanþágu er krafist til samkvæmt náttúruverndarlögum eða stjórnvaldsfyrirmælum á grundvelli þeirra. 

Málið rataði í fréttir í fyrra en þá voru mennirnir þrír sagðir hafa verið í neyðarskýli Björgunarfélags Ísafjarðar í Hornvík og stundað þar veiðar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×