Innlent

Konurnar allar frá Suður-Ameríku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fólkið sem um ræðir var handtekið í síðustu viku en þau eru á fertugs- og fimmtugsaldri. Þau voru úrskurðuð í gæsluvarðhald til 6. desember.
Fólkið sem um ræðir var handtekið í síðustu viku en þau eru á fertugs- og fimmtugsaldri. Þau voru úrskurðuð í gæsluvarðhald til 6. desember. Vísir/Anton Brink
Þrjár konur, sem allar eru frá Suður-Ameríku og grunur leikur á að hafi verið gerðar út í vændi hér á landi af pari sem situr í gæsluvarðhaldi, eru annað hvort farnar af landi brott eða á leiðinni úr landi.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi en fyrir helgi voru teknar skýrslur af konunum fyrir dómi sem nýtast þá ef ákært verður í málinu og það fer fyrir dóm.

Konurnar fundust á tveimur af þremur stöðum þar sem lögregla gerði húsleit í liðinni viku vegna málsins. Þær eru ekki grunaðar um refsiverða háttsemi enda er ekki ólöglegt að stunda vændi. Það er hins vegar ólöglegt að kaupa vændi og þá er ólöglegt fyrir þriðja aðila að hagnast á vændi annarra.

Komið hefur fram að til rannsóknar sé hvort að konurnar séu þolendur mansals. Aðspurður hvort eitthvað komið út úr þeim þætti rannsóknarinnar segir Grímur að þetta sé enn hluti af rannsókninni. Konunum hafi verið boðin viðeigandi úrræði en þær þáðu þau ekki.

Grímur vill ekki fara út í það sem kom fram í yfirheyrslu yfir konunum en segir það hafa verið ágætt að tala við þær. Þá vill hann heldur ekki fara út í þær aðgerðir sem tengjast hugsanlegum kaupendum vændis í þessu máli en greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 um helgina að lögreglan telji sig vita um tugi kaupenda.

Karl og kona voru úrskurðuð í gæsluvarðhald til 6. desember á miðvikudaginn. Þau eru á fertugs-og fimmtugsaldri og er karlmaðurinn íslenskur en konan af erlendu bergi brotin.

Ekki hefur farið í frekari húsleitir vegna málsins að sögn Gríms og aðspurður segir hann íbúðirnar sem leitað var í ekki vera Airbnb-íbúðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×