Alþjóða ólympíunefndin er enn að senda rússneska íþróttamenn í bann og í gær fengu fimm þeirra lífstíðarbann.
Sergei Chudinov, Aleksei Negodailo, Dmitry Trunenkov, Yana Romanova og Olga Vilukhina fengu sína refsingu að þessu sinni.
Ólympíunefndin byrjaði að setja Rússa í bann 1. nóvember og í gær sendi hún frá sér í fyrsta skipti fulla útskýringu á bönnunum.
Negodailo og Trunenkov voru í fjögurra manna bobsleða-teymi Rússa sem fékk gull á Vetrarleikunum í Sotjsí árið 2014. Romanova og Vilukhina fengu báðar silfur á sömu leikum.
Alls er búið að senda 19 rússneska íþróttamenn í lífstíðarbann síðan hin fræga Mc-Laren skýrsla kom út á síðasta ári.
Ólympíunefndin mun ákveða þann 5. desember næstkomandi hvort rússneskir íþróttamenn fái að taka þátt á Vetrarólympíuleikunum sem hefjast í byrjun febrúar.

