Pálmi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs MS, segir í síðasta fréttabréfi til bænda að birgðir af osti séu í hærri kantinum og stöðugt sé verið að flytja út prótein í formi undanrennudufts. Segir hann framleiðslu á próteini ríflega 17 milljónum lítra meiri en innanlandssala.

Á sama tíma og ostabirgðir eru að aukast hafa fitubirgðirnar verið stöðugar á þessu ári. Hins vegar hefur MS selt um 500 tonn af smjöri og annað eins af osti til að lækka birgðastöðu sína. Verðið á smjörinu er um 350 krónur á hvert kíló en verðið á ostinum er aðeins 211 krónur hvert kíló. Egill segir ekki hægt að bera það verð saman við verðið í íslenskum verslunum. „Kannski er ólíku saman að jafna. Þegar ostur er kominn í neytendaumbúðir hefur verið lagður á hann virðisauki og álagning verslunar.“
„Munur á útflutningsverði osts og því verði sem sést í verslunum hér á landi þarf ekki að koma á óvart,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Í skjóli mjög hárra tolla á ost hér á landi geta innlendir framleiðendur haldið uppi verði sem er miklu hærra en heimsmarkaðsverð. Erlendir kaupendur myndu aldrei kaupa íslenskan ost á því verði sem Íslendingum stendur til boða.
Ef ostbirgðir eru að safnast upp getur MS auðvitað nýtt tækifærið og lækkað verð á ostum til að auka eftirspurnina hér á landi.“