Innlent

Brynjar um stjórnarslitin: „Sennilega stærstu pólitísku mistök lýðveldisins“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Valhöll daginn eftir að stjórnin sprakk í september síðastliðnum.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Valhöll daginn eftir að stjórnin sprakk í september síðastliðnum. vísir/vilhelm

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist telja að reynt fólk í pólitík hefði ekki gert það sem Björt framtíð gerði í haust, það er að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

„Ég held að þau hljóti að þau hljóti að átta sig á því í dag allavega. Þetta eru sennilega stærstu pólitísku mistök lýðveldisins,“ sagði Brynjar í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og annað í pólitíkinni ásamt Helga Hrafni Gunnarssyni, Pírata.

Helgi Hrafn tók ekki undir það að Björt framtíð hefði verið reynslulítill flokkur á þingi þegar þau settust í ríkisstjórn enda hefði flokkurinn átt þingmenn áður.

Aðspurður hvernig honum litist á Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem forsætisráðherra sagðist Brynjar hafa unnið með Katrínu og að hann viti hvað hún getur.

„Þetta er bráðgreind kona, fljót að átta sig á hlutum. Eini gallinn við hana er að hún er ekki með nógu góðar skoðanir en ég get ekki ætlast til þess að allir hafi sömu skoðanir og ég. Hún er allavega skynsöm og þegar fólk er skynsamt þá nær það svona langt þó að skoðanir séu á flakki.“

En hefur hann áhyggjur af málum sem kunna að koma upp, eftir að búið er að rita stjórnarsáttmála, sem geta valdið deilum á milli flokkanna þriggja?

„Jú, það er auðvitað alltaf hættan. Það er kannski eina vandamálið þegar menn eru svona á sitthvorum pólnum en það getur líka alveg gerst á milli annarra flokka. Reynt fólk bara leysir það einhvern veginn. Það eru stóru hagsmunirnir sem fólk á að hugsa um,“ sagði Brynjar.

Helgi Hrafn var spurður að því af hvejru hann hefði mestar áhyggjur í ríkisstjórnarsamstarfi þessara þriggja flokka.

„Ég hef mestar áhyggjur af því að þetta verði frekar íhaldssamt og lítið um mikilvægar breytingar. Auðvitað hefur enginn þessara flokka nema Vinstri græn á köflum barist fyrir því að það verði einhverjar alvöru kerfisbreytingar hérna. [...] Ég óttast að það verði meiri feimni við meira frjálslyndi, til dæmis í vímuefnamálum sem okkur er mjög annt um að verði og að vinnu við það haldi áfram,“ sagði Helgi Hrafn.

Hlusta má á spjall þeirra Brynjars í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.