Innlent

Flokkshollusta er mjög á undanhaldi

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Myndin sýnir þróun á því hvenær kjósendur gera upp hug sinn samkvæmt mælingum Gallup.
Myndin sýnir þróun á því hvenær kjósendur gera upp hug sinn samkvæmt mælingum Gallup.
Kosningahegðun hefur breyst töluvert á undanförnum árum samkvæmt mælingum Gallup. Þær sýna að æ stærra hlutfall kjósenda ákveður ekki fyrr en á kjördag hvaða flokkur fær atkvæði þeirra.

Að sama skapi dregst mjög saman hlutfall þeirra kjósenda sem hafa gert upp hug sinn meira en mánuði fyrir kosningar. Árið 2007 voru 57 prósent kjósenda búin að gera upp hug sinn meira en mánuði fyrir þingkosningar.

Tveimur árum síðar hafði þessum löngu ákveðnu kjósendum fækkað og var hlutfallið komið niður í 38 prósent. Fyrir þingkosningarnar 2016 var þessi hópur kominn niður í 31 prósent.

Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingurVísir
„Þessar tölur sýna okkur að flokkshollusta hefur verið mjög á undanhaldi, sérstaklega eftir hrunið. Þetta hefur íslenska kosningarannsóknin líka sýnt,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, og bætir við:

„Svo má heldur ekki gleyma því að við erum náttúrulega búin að vera með aukinn fjölda flokka líka. Þannig að við þurfum að taka með í reikninginn að valkostunum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum, sem getur skýrt af hverju fólk er lengur að gera upp hug sinn og er reiðubúnara en áður til að hafna sínum flokki.“

Grétar bendir á að þessi þróun gefi einnig vísbendingu um að allra síðustu metrar kosningabaráttunnar geti haft mikil áhrif á niðurstöður kosninga.

„Frammistaða flokkana í leiðtogaumræðum kvöldið fyrir kjördag getur því haft mjög mikil áhrif,“ segir Grétar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.