Innlent

Björn skipulagði „brotthvarfið“ og endaði á geðdeild: „Ég er búinn að finna frið“

Þórdís Valsdóttir skrifar
Björn Steinbekk segist hafa átt við mjög erfið mál og að hann hafi eytt síðasta ári í að byggja sig upp.
Björn Steinbekk segist hafa átt við mjög erfið mál og að hann hafi eytt síðasta ári í að byggja sig upp. Vísir/Stefán
„Það er nú ekki nema ár síðan ég var bara kominn inn á geðdeild að skipuleggja brotthvarfið,“ segir Björn Steinbekk í viðtali á Rás 2 um helgina. Björn komst í fréttirnar á síðasta ári þegar hann hafði selt hundruðum Íslendinga miða á EM í fótbolta sem hann gat svo ekki afhent.

Sjá meira: Segja maðk í mysunni með miða Björns Steinbekk

Í kjölfar málsins var Björn kærður til lögreglu. Björn var sýknaður í miðasölumálinu svokallaða í mars á þessu ári. 

„Ég er búinn að vera að eiga við mjög erfið mál, það er bara þannig,“ segir Björn í viðtalinu og hann segir að hann hafi varið heilu ári í að byggja sig upp. Björn var klökkur þegar hann ræddi þessi mál.

„Ég er búinn að draga mig úr öllu umhverfi sem er truflandi og ég er búinn að finna frið, sættast við mig og menn og ég er búinn að fara svolítið inn í það að heillast af landinu mínu,“ segir Björn en hann starfar nú við ferðaþjónustu.

„Það er bara einn Björn Steinbekk sem býr á þessu landi“

Björn var á milli tannanna á öllum landsmönnum á síðasta ári og segir að nú segi hann alltaf sömu setninguna þegar hann mæti á fundi.

„Það hefur hjálpað mér mjög mikið að segja „Ég ætla bara að taka það skýrt fram að ég heiti Björn Steinbekk og það er bara einn Björn Steinbekk sem býr á þessu landi“, fólki finnst það voða þægilegt því þegar þú ert þriðji googlaðasti maðurinn á landinu þá kemstu ekki hjá því.“

Björn starfar nú við ferðaþjónustu og segist vera ástfanginn af Íslandi. „Ég sakna þess dálítið að vera ekki að skemmta fólki eins og ég var að gera en ég er að gera það á annan hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×