Innlent

Rúmlega 300 skráð sig úr Þjóðkirkjunni eftir orð biskups

Atli Ísleifsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir biskup.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Vísir/Vilhelm
Samtals hafa rúmlega þrjú hundruð manns skráð sig úr Þjóðkirkjunni í gær og það sem af er þessum degi. Þetta kemur fram í svari Þjóðskrár við fyrirspurn Vísis.

Reikna má með að úrsagnarhrinan tengist að einhverju leyti orðum Agnesar M. Sigurðardóttur biskups í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í gær. Ummælin vöktu mikla athygli en þar sagðist hún ekki sammála þvi að allt væri leyfilegt í sannleiksleitinni.

„Mér finnst til dæmis ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós,“ sagði Agnes en tilefni viðtalsins var að 500 ár eru nú frá siðbót Lúthers.

Í svari frá Þjóðskrá kemur fram að 266 manns hafi skráð sig úr Þjóðkirkjunni í gær, mánudag, en á hádegi í dag höfðu 41 til viðbótar gert slíkt hið sama. Fyrir gærdaginn höfðu alls 173 manns skráð sig úr Þjóðkirkjunni það sem af er októbermánuði.

Ummæli Agnesar hafa af mörgum verið sett í samhengi við að sýslumaður féllst á lögbannskröfu Glitnis HoldCo við birtingu Stundarinnar og Reykjavík Media á fréttaflutningi byggðum á gögnum frá Glitni. Umfjöllun Stundarinnar hefur að mestu snúist um viðskiptasögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og fjölskyldu hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×