Innlent

Vonast til hagfelldra úrslita

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigurður Ingi kaus á Flúðum í dag.
Sigurður Ingi kaus á Flúðum í dag. Vísir/Magnús Hlynur
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er vongóður og vonast til hagfelldra úrslita í dag. Hann mun verja mest öllum deginum í að keya um hið stóra Suðurkjördæmi.

„Við erum búin að finna fyrir miklum stuðningi síðustu vikuna og þá sérstaklega síðastliðna þrjá fjóra. Það hefur svo sem sést í skoðanakönnunum þessa dagana. Ég er bara vongóður að niðurstaðan verði okkur hagfelld. Ég held að það skipti máli að Framsóknarflokkurinn komi sterkur út úr þessum kosningum því það þarf jú að mynda starfhæfa ríkisstjórn í þessu landi,“ segir Sigurður í samtali við Vísi.

Sigurður Ingi mun líklega verja deginum að miklu leyti í bíl þar sem hann stefnir á að kíkja á kosningaskrifstofur Framsóknarflokksins í kjördæminu, sem er stórt. Hann setur stefnuna á Selfoss, Grindavík og Reykjanesbæ.

„Ég get ekki skroppið á Höfn, þó skemmtilegt væri,“ segir Sigurður. Hann ætlar einnig að reyna að koma við í Kópavoginum í hjá Framsóknarflokknum á Hverfisgötunni.

„Ég verð bara í bíl í dag. Það er hlutskipti okkar landsbyggðarþingmanna. Það er að vera í bílnum.“

Framsóknarflokkurinn hefur hækkað aðeins í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga.

„Ég vona bara að við séum á þessari siglingu og dagurinn í dag skili okkur hagfelldum úrslitum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×