Innlent

Lilja kippir sér ekkert upp við ummæli Sigmundar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að Framsóknarflokkurinn hafi náð góðum árangri með því að tefla fram Lilju Alfreðsdóttur í kosningabaráttunni sem hann segir fulltrúa Miðflokksins í Framsókn. Lilja kippir sér ekkert upp við ummælin.

Sigmundur Davíð lét ummælin falla í ræðu sem hann flutti á kosningavöku Miðflokksins klukkan eitt í nótt.

„Á sama tíma og Framsóknarflokkurinn er með því að nota bandamann okkar, Lilju Alfreðsdóttur, sem sitt helsta útspil í kosningabaráttunni og treysta á Miðflokksmanneskjuna í Framsóknarflokknum til að leiða hann til sigurs, með ágætis árangri. Að vísu minnsta fylgi sem Framsóknarflokkurinn hefur fengið í hundrað ár en miklu meira en þeir gerðu ráð fyrir,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur endurtók þetta svo efnislega í Silfrinu á RÚV í morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sagði í leiðtogaþætti Stöðvar 2 að hann þyrfti ekki þurfa að svara fyrir svona ummæli eftir að Sigmundur hætti í Framsóknarflokknum. „Ég og Framsóknarflokkurinn þurfum ekki lengur að svara fyrir svona tal,“ sagði Sigurður Ingi. 

Sigmundur var sjálfur spurður hvers vegna hann teldi að Lilja Alfreðsdóttir væri sérstakur bandamaður Miðflokksins. „Ég bara þekki Lilju Alfreðsdóttur og þá pólitík sem hún stendur fyrir,“ sagði Sigmundur. 

Sjálf kippir Lilja Alfreðsdóttir sér ekkert upp við þetta.

„Þetta er að mínu mati ekki stóra málið á dagskrá íslenskra stjórnmála í dag. Það er það sem mér finnst um þetta,“ segir Lilja.

Þannig að þetta skiptir kannski engu máli?

„Nei, Það þarf að mynda ríkisstjórn í þessu landi og það er það sem sem skiptir máli,“ segir Lilja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×