Innlent

Sýslumaðurinn ber fullt traust til lögfræðinga sinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Andri

Sýslumaðurinn í Reykjavík segist bera fullt traust til lögfræðinga sinna. Lögfræðingar á Fullnustusviði embættisins hafi verkefni eins lögbannið gagnvart umfjöllun Stundarinnar um gögn frá Glitni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórólfi Halldórssyni, sýslumanni Reykjavíkur.

Í tilkynningunni segir að lögbann vera bráðabirgðaúrræði og dómstólar muni leysa málið til fullnustu.

„Eðli málsins samkvæmt þarf að taka skjóta ákvörðun í slíkum málum og úrræðið gerir aðeins að takmörkuðu leyti ráð fyrir að farið sé djúpt í efnisatriði máls. Það mat fer fram hjá dómstólum í staðfestingarmáli sem höfða þarf innan viku, að öðrum kosti fellur lögbannið niður,“ segir í tilkynningunni.

„Má þannig segja að með því að fallast á lögbannskröfu sé embættið að frysta tiltekið ástand meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum.“

Undanfarnar vikur hefur Stundin, ásamt Reykjavík Media og breska miðlinum The Guardian fjallað með ítarlegum hætti um fjármálagerninga Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og venslamanna hans dagana fyrir hrun. Fréttirnar eiga rætur að rekja til gagna frá Glitni sem lekið var til blaðamanna.

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, segir að umfjöllun miðilsins hafi ekki verið lokið. Líklegast náist ekki að birta frekari fréttir fyrir kosningar.

„Við höfðum ekki lokið okkar umfjöllun um þessi mál og teljum að fleiri um þau eigi erindi til almennings,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið.

Í tilkynningu Sýslumanns segir að embættið telji að útskýra þurfi lagalegu hlið málsins og að hún hafi litla umfjöllun fengið.

Vísað er til 58. greinar laga um fjármálafyrirtæki þar sem fram komi að í raun séu allir bundnir trúnaði varðandi gögn sem um ræðir. Ekki bara starfsmenn fjármálafyrirtækja.

„Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. málsgrein er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir,“ segir í lögunum.

Þá hafa forsvarsmenn Glitnir HoldCO hafi farið fram á lögbann þar sem þeir telji gögnin sem ritstjórn Stundarinnar sé með innihaldi viðskiptaupplýsingar um þúsundir viðskiptavina bankans.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.