Bjarni var í viðtali nú rétt í þessu við útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis um þetta mál málanna, sem er lögbannskrafa Glitnis HoldCo, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu varð við, að fréttaflutningur Stundarinnar sem byggir á gögnum frá Glitni yrði stöðvaður.

Bjarni segir það eindregið sína skoðun að þegar „maður tekur að sér embætti eins og ég hef boðið mig fram til að gera, verði menn að sætta sig við að í almenni umræðu muni gilda önnur viðmið, aðrar reglur en um þá sem ekki eru í opinberu starfi, þegar kemur að opinberri umræðu. Og þess vegna vil ég að fólk átti sig á því að ég bað ekki um þetta lögbann. Það er að koma sér illa fyrir mig að lögbann hafi verið lagt á umfjöllun um mig.“Bjarni segir, án þess að hann viti hvað stóð til að skrifa næst uppúr téðum gögnum, út í hött að telja að svo sé.
„Vegna þess að hafi átt að fyrirbyggja eitthvað tjón sé ég nú ekki betur en að menn hafi nú þegar nýtt sér þessi sömu gögn til að skrifa botnlaust fréttir um mig,“ segir Bjarni. Og segist oft ekki vera ánægður með fréttaflutninginn.
Oft ósáttur við Stundina
„Ég er ekkert sáttur við allar þessar fréttir.
Mér finnst hlutir oft slitnir úr samhengi. Mér finnst að menn fari með hálfsannleik, mér finnst að menn séu með dylgjur. En ég læt það yfir mig ganga.Vegna þess að hitt er svo miklu mikilvægara, að menn hafi frelsi í þessu landi, til þess að stunda ábyrga, opna, lýðræðislega fjölmiðlun. Já, svosem mér finnst stundum að hún mætti vera vandaðri. En að vernda tjáningarfrelsið, það er eitt af þeim málefnum sem við stöndum fyrir. Við höfum barist fyrir frjálsri fjölmiðlun í þessu landi Sjálfstæðisflokkurinn og við berjumst fyrir stjórnarskrárvörðum réttindum eins og tjáningarfrelsinu. Og höfum ekkert með það að gera, þetta mál, með þeim hætti sem það gerðist.“
Út í hött að skrúfa fyrir fréttaflutning
Útvarsmennirnir spurðu Bjarna út í það hvort hann hafi velt því fyrir sér hvaðan gögnin eru komin og hvort einhverjir óvildarmenn hans innan Glitnis hafi komið þeim á framfæri?

Til óþurftar fyrir sig og samfélagið allt
Bjarni segist ekki tala fyrir þúsundir manna annarra sem samkvæmt fréttum komi fyrir í gögnunum. Og vill ekki gera lítið úr því þó einhverjir kunni að vilja vernda hagsmuni þeirra.
„Það kunna að vera góðar ástæður til þess. Og það verða aðrir að tala fyrir þeim. En þegar kemur að mér sjálfum verð ég bara að segja að það er dálítið út í hött að það sé verið að hjálpa mér með þessu. Þvert á móti er bara verið að þvæla umræðuna hér í aðdraganda kosninga þegar við ættum að vera að horfa fram veginn,“ segir Bjarni sem ítrekar að þetta mál sé til óþurftar fyrir sig og reyndar samfélagið allt þegar það ætti að vera að ræða mikilvægari mál í aðdraganda kosninga.