Innlent

Dögun býður ekki fram

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá blaðamannafundi Dögunar í aðdraganda Alþingiskosninganna 2016.
Frá blaðamannafundi Dögunar í aðdraganda Alþingiskosninganna 2016. Dögun
Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði munu ekki bjóða fram lista á landsvísu í komandi Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í skeyti formanns flokksins, Pálmeyjar Gísladóttur, til fjölmiðla nú í morgun. Þar er þó ekki nánar greint frá því hvað býr að baki þessari ákvörðun en aðrir minni flokkar hafa áður sagt erfitt að undirbúa framboð með svo skömmum fyrirvara. 

„Þrátt fyrir þessa niðurstöðu mun Framkvæmdaráð Dögunar vera opið fyrir því að ræða um samstarf á grundvelli málefna Dögunar - við þá sem að öðru leyti geta átt málefnalega samleið,“ bætir hún við.

Þar segir jafnframt að félagsmenn í einstaka kjördæmum hafi þó frjálsar hendur um framboð undir listabókstaf flokksins, T. Boðið hefur verið fram undir merkjum flokksins frá árinu 2012 og hlaut hann 1,7% atkvæða í Alþingiskosningunum 2016. Fékk hann því enga þingmenn kjörna.

Dögun lýsti fyrir kosningarnar í fyrrahaust yfir vilja til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að því gefnu að flokkurinn fengi Fjármálaráðuneyti, Innanríkisráðuneyti og Sjávarútvegsráðuneyti.

Dögun hefur lagt áherslu á afnám verðtryggingar og aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka. Þá vilja félagsmenn jafnframt að Landsbankinn verði gerður að samfélagsbanka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×