Lífið

Útivistarfatnaður fyrir borgina

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Silas Adler, yfirhönnuður Soulland.
Silas Adler, yfirhönnuður Soulland.
„Soulland er fatamerki frá Kaupmannahöfn. Við byrjuðum fyrir tólf árum og höfum gert alls konar verkefni síðan þá og farið í alls kyns samstarf. Í fyrra réðumst við í samstarf með 66°Norður og núna í október kemur annað verkefni frá okkur. Megináherslan er auðvitað á okkar eigin línur en við reynum alltaf að brjóta þetta upp með samstarfsverkefnum við merki sem hafa sérþekkingu sem við höfum ekki. Við erum til að mynda í samstarfi við Nike þar sem við gerum strigaskó ásamt fatnaði,“ segir Silas Adler, yfirhönnuður og einn stofnandi fatamerkisins Soulland. Soulland X 66°Norður fer í sölu í verslun 66°Norður á Laugaveginum þann 5. október.

Hvað var það sem tengdi Soulland og 66°Norður saman?

„Fyrir nokkru byrjuðum við í viðræðum við þau hjá 66°Norður. Þau voru að vinna að ákveðnum verkefnum og við líka, en hægt og rólega tók samstarf okkar að fæðast. Þetta byrjaði með fundum þar sem við ræddum um hvort sjónarhóll okkar væri svipaður og þaðan fór vinnan af stað. Við sáum að tækniþekking þeirra við framleiðslu á útifatnaði var mjög góð og áhugaverð fyrir okkur – þessi þekking opnaði fyrir okkur tækifæri til að hanna vörur sem við höfum ekki getað hannað áður. Þau höfðu líka góðan skilning á flötum þar sem við höfum ákveðna styrkleika – þau vita hverju þau eru góð í og við vitum hverju við erum góð í.“

Hver er hugmyndin á bak við línuna?

„Hugmyndin er að gera útivistarföt fyrir staði í heiminum þar sem veðráttan er óvægin – eins og auðvitað á Íslandi. En líka að hafa hönnunina nokkuð hlutlausa svo fötin henti líka fyrir notkun í stórborgum. Við hugsuðum mikið um til að mynda hjólreiðar og göngu – eitthvað sem tíðkast mikið í Kaupmannahöfn, þar sem rignir töluvert. Við reyndum að gera útlitið frekar sportlegra og kraftmeira en tíðkast kannski í þess háttar fatnaði. Við enduðum með línu sem er mitt á milli þess sem Soulland stendur fyrir og þess sem 66°Norður stendur fyrir.“

Í línunni eru flíspeysur, jakkar, regnjakkar og slatti af aukahlutum sem samkvæmt Silas ættu að nýtast frá hausti allt til enda vetrar.

Hvað er næst hjá Soulland?

„Við erum að setja á markað línu með Nike í desember. Auk þess gerum við á eigin spýtur fjórar línur á ári – svo það er í raun alltaf lína á leiðinni sem við erum að vinna í og alltaf eitthvað að gerast.“

Brot úr línunni sem sameinar götuhönnun stórborgarinnar og virkni útivistarfatnaðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×