Innlent

Lítið hlaup í Múlakvísl um garð gengið

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki er óalgengt að brennisteinslykt finnist í námunda Mýrdalsjökuls þar sem Katla hvílir undir.
Ekki er óalgengt að brennisteinslykt finnist í námunda Mýrdalsjökuls þar sem Katla hvílir undir. Vísir/Haraldur Guðjónsson
Vísbendingar eru um að lítið hlaup hafi orðið í Múlakvísl þegar einn af kötlunum undir Mýrdalsjökuli tæmdi sig í vikunni. RÚV segir frá því að brennisteinslykt hafi fundist við ána en sérfræðingur Veðurstofunnar segir það ekki óvanalegt.

Í frétt RÚV í morgun kom fram að fararstjóri sem var staddur við Múlakvísl í morgun hafi fundið nokkra brennisteinslykt leggja af ánni.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að engar óvenjuleg gildi hafi komið fram á gasmælum. Brennisteinslykt finnist hins vegar oft af ám við Mýrdalsjökul.

Aðfaranótt þriðjudagsins 3. október virðist hins vegar sem að lítilsháttar jökulhlaup hafi átt sér stað í Múlakvísl.

„Þetta var örugglega mjög lítið hlaup. Það rann örugglega úr einum katli í jöklinum. Við sáum órá sem benti til þess að það væri eitthvað að gerast í vatnakerfi undir jöklinum þannig að við fylgdumst vel með Múlakvísl þessa nótt,“ segir Einar.

Jarðhitarennslið jókst tímabundið og rennsli árinnar tímabundið en Einar segir að engin hætta hafi stafað af hlaupinu. Því sé líklega lokið. Engin merki séu um frekari hræringar undir Mýrdalsjökli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×