Innlent

Hinn grunaði í Hagamelsmálinu úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi á Hagamel í síðustu viku.
Frá vettvangi á Hagamel í síðustu viku. Vísir

Gæsluvarðhald yfir karlmanni á fertugsaldri, sem grunaður er um að hafa orðið lettnesku konunni Sanitu Braune að bana í fjölbýlishúsi á Hagamel þann 21. september, var framlengt um fjórar vikur í dag. 

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á þá kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á öðrum tímanum. Maðurinn var handtekinn á Hagamel umrætt fimmtudagskvöld og var úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu. Framan af var hann í einangrun en ekki lengur.

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrú hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem fer fyrir rannsókn málsins, segir í samtali við Vísi að gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt til 27. október. 

Aðspurður hvers vegna farið sé fram á varðhald á grundvelli almannahagsmuna en ekki rannsóknarhagsmuna, líkt og fyrir viku, segir hann ekki grundvöll hafa verið fyrir því lengur. Lögregla telji sig ekki þurfa að hafa hinn grunaða lengur í einangrun og ekki sé talin hætta á að hægt sé að spilla rannsókninni.

Búið er að taka skýrslur af töluvert mörgum vitnum. Einar vill ekki upplýsa um það hvort einhver hafi orðið vitni að því þegar konunni var ráðinn bani. 

Hinn grunaði, hælisleitandi frá Yemen, hefur verið samvinnuþýður og yfirheyrður nokkrum sinnum vegna málsins að því er Einar greindi Vísi frá í gær. Lögreglan vill þó ekki gefa upp hvort játning liggi fyrir í málinu og ekki er komin endanleg niðurstaða úr krufningu er varðar dánarorsök.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.