Innlent

Ríkið þarf að greiða lögreglufulltrúa sem var sakaður um spillingu milljónir í bætur

Kjartan Kjartansson skrifar
Innbyrðis deilur í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu brutust meðal annars út í ásökunum um spillingu á hendur lögreglufulltrúa þar.
Innbyrðis deilur í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu brutust meðal annars út í ásökunum um spillingu á hendur lögreglufulltrúa þar. Vísir/GVA
Fyrrverandi lögreglufulltrúi hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var sakaður um spillingu vann skaðabótamál gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ríkið þarf að greiða honum 2,2 milljónir í bætur. Lögmaður hans segir dóminn áfellisdóm yfir yfirstjórn lögreglunnar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ásakanir um að lögreglufulltrúinn hefði brotið alvarlega af sér í starfi hafi „alla tíð verið með öllu órökstuddar“. Þær hafi aðeins byggst á orðrómi og engu öðru.

Ákvörðun yfirstjórnar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að víkja honum frá störfum tímabundið í janúar í fyrra hafi verið ólögmæt.

Málið gegn honum var fellt niður þar sem engar vísbendingar fundust um að hann hefði brotið af sér. Hann hafði verið sakaður um óeðlileg samskipti við uppljóstrara lögreglunnar og jafnvel um að hafa þegið milljónir í greiðslur frá honum.

Auk skaðabótanna var ríkið dæmt til að greiða tvær milljónir króna í málskostnað.

Kristján Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúans, segir við Vísi að dómurinn sé afdráttarlaus. Brottvikning hans hafi verið óþörf og ólögmæt.

„Ég myndi segja að þetta væri gríðarlegu áfellisdómur yfir framgöngu yfirstjórnar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í málinu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×