Innlent

Fulltrúi VG lýsir einnig vantrausti á formennsku Brynjars

Kjartan Kjartansson skrifar
Svandís Svavarsdóttir segir nefndina ekki geta lokið málum sem varða uppreist æru undir formennsku Brynjars Níelssonar.
Svandís Svavarsdóttir segir nefndina ekki geta lokið málum sem varða uppreist æru undir formennsku Brynjars Níelssonar. Vísir/Eyþór
Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir að nefndin geti ekki lokið málum sem varða uppreist æru undir formennsku Brynjars Níelssonar.

Greint hefur verið frá því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ætli að fá heimild til að rjúfa þing á morgun. Gengið verði til kosninga 28. október.

Í færslu á Facebook-síðu sinni skrifar Svandís að hægt verði að halda þingfundum áfram fram að kosningum og nefndarstarfi sömuleiðis. Nefnir hún að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi í nógu að snúast varðandi uppreist æru.

„Í ljósi nýjustu vendinga og stjórnarslita verður að halda þeirri umfjöllun áfram og ljúka með fullnægjandi hætti. Ljóst er að það getur ekki verið undir forystu Brynjars Níelssonar,“ skrifar Svandís.

Viðreisn krafðist rannsóknar á embættisfærslum ráðherra

Brynjar hefur verið gagnrýndur fyrir hvernig hann stýrði umfjöllun nefndarinnar um uppreist æru í sumar. Fulltrúar meirihlutans kynntu sér ekki gögn sem voru lögð fyrir nefndina sem vörðuðu uppreist æru Roberts Downey, dæmds barnaníðings.

Þorsteinn Víglundsson, félagsmálaráðherra Viðreisnar, lýsti vantrausti á formennsku Brynjars í samtali við Vísi í kvöld. Ráðgjafaráð Viðreisnar hafði þá samþykkt ályktun um að nefndin myndi rannsaka embættisfærslur forsætisráðherra og Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sem leiddu til stjórnarslita.

Brynjar hafnaði gagnrýninni í samtali við Vísi og sagði ályktun Viðreisnar vanhugsaða.


Tengdar fréttir

Brynjar útilokar rannsókn þingnefndar á Bjarna og Sigríði

Engin þörf er á því að embættisfærslur forsætis- og dómsmálaráðherra varðandi uppreist æru verði rannsakaðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þrátt fyrir ályktun Viðreisnar þess efnis, að sögn Brynjars Níelssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×