Íslenski boltinn

Gísli Eyjólfsson: Tók Cantona fagnið - Aldrei hitt boltann svona vel

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Gísli Eyjólfsson skoraði frábært mark fyrir Blika í kvöld.
Gísli Eyjólfsson skoraði frábært mark fyrir Blika í kvöld. Vísir/Anton
Gísli Eyjólfsson átti frábæran leik fyrir Breiðablik í 3-0 sigri liðsins á Ólafsvíkingum í kvöld. Hann var að vonum ánægður í leikslok.

„Þetta var rosalega gott. Eftir að hafa tapað tveimur í röð var gott að koma hingað og hysja upp um sig buxurnar.“

Og Gísli var ekki bara ánægður með sigurinn heldur skoraði hann sannkallað draumamark er hann smellhitti boltann og setti hann í netið rétt við samskeytin. En það var ekki bara markið sem var rándýrt heldur var fagnið hans Gísla einnig af dýrari kanntinum.

„Ég reyndi að láta líta út eins og ég geri þetta á hverri einustu æfingu. Tók Cantona fagnið en satt að segja held ég að ég hafi bara aldrei hitt boltann jafn vel,“ en Gísli er þá að vísa í frægt fagn frá Eric Cantona eftir glæsilegt mark hans gegn Sunderland fyrir 21 ári síðan.

Gísli Eyjólfsson var lánaður til Víkings Ó. og stóð sig þar mjög vel en síðan Breiðablik fékk hann til baka hefur hann spilað nánast hverja einustu mínútu.

„Það var leiðinlegt að gera þetta gegn gamla félagi mínu en það var sætt að ná sigri.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.