Innlent

Formaður Félags framhaldsskólakennara gagnrýnir hugmyndir um einkarekna skóla og árangurstengd laun

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Guðríður er alls ekki sammála Áslaugu Örnu og lét það í ljós í nýjum skoðanapistli á Vísi.
Guðríður er alls ekki sammála Áslaugu Örnu og lét það í ljós í nýjum skoðanapistli á Vísi.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, gagnrýnir hugmyndir Áslaugar Örnu um að fjölga einkareknum skólum til að draga úr kennaraskorti. Segir hún að sama krónan verði notuð til að reka skóla í opinberum rekstri sem og í einkarekstri. Lausn hennar feli því ekki í sér ódýrari kost.

„Það er ekkert ódýrara að reka einkaskóla og við má bæta að illa reknum einkaskóla er hvort eð er reddað af hinu opinbera ef reksturinn kemst í þrot,“ segir í skoðanapistli Guðríðar.

Guðríður leggur áherslu a að leik- og grunnskólar séu undirfjármagnaðir af sveitarfélögunum og að kennarar séu að fá langt um minni laun en aðrir háskólamenntaðir einstaklingar hjá hinu opinbera.

Hættuleg hugmynd

Guðríður gagnrýnir einnig hugmyndir Áslaugar um árangurstengd laun. Hún segir að erfitt sé að meta frammistöðu kennara. Hún segir hugmyndina vera hættulega og líkir þessu við að bæta við launatengdu hvatakerfi fyrir lækna.

„Eiga læknar að fá greitt fyrir fjölda aðgerða sem þeir ná að ljúka á degi hverjum? Eða á að lækka þá í launum ef tiltekinn fjöldi sjúklinga fær sýkingu í kjölfar aðgerðar? Það var brugðist við læknaskorti vorið 2015 með því að hækka laun lækna myndarlega. Það virkaði. Auðvitað hafa starfsaðstæður mikið að segja en reynslan hefur sýnt að það eru launin sem hafa allt að segja um það hvernig gengur að manna stöður,“ segir í pistli Guðríðar.

Þörf á endurskoðun

Hún telur þó að það þurfi mjög svo að endurskoða kjarasamninga kennara og auka fresli þeirra til að ráðstafa sínum vinnutíma.

Meta þurfi aukið álag sem núverandi menntastefna fyrir í sér og þann tíma sem fer í samskipti kennara við heimili, nemendur og stuðningsnet þeirra í grunnskóla. Þá þurfi sérstaklega að hækka laun kennara og gera þau samkeppnishæf.

„Það er fyrst og síðast það sem kemur raunverulega í veg fyrir að menntakerfinu blæði út,“ segir Guðríður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×