Innlent

Hyggjast birta upplýsingar um kynferðisbrotamál ef búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Jóhannes segir að ekki hafi verið þörf á að halda sakborningi lengur vegna rannsóknarhagsmuna og að málsatvik hafi verið nokkuð ljós.
Jóhannes segir að ekki hafi verið þörf á að halda sakborningi lengur vegna rannsóknarhagsmuna og að málsatvik hafi verið nokkuð ljós. Vísir/Vilhelm
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir að ekki sé um stefnubreytingu að ræða í upplýsingagjöf um kynferðisbrotamál á Þjóðhátíð í Eyjum. Fyrr í dag greindi lögreglan í Vestmannaeyjum frá kynferðisbroti í færslu á Facebook-síðu sinni en lögregla hafði ítrekað varist fregna af slíkum brotum þegar fréttastofa spurðist fyrir um þau um helgina.

Spurður hvort lögreglan muni gefa upp upplýsingar um fjölda kynferðisbrotamála segir hann lögregluna alltaf gera það ef búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni. „Það er engin stefnubreyting með það, það er alltaf meiningin í þessu. Ef við teljum að málið sé upplýst að mestu þá látum við það frá okkur. Það hefur alltaf verið stefnan í þessum málum þrátt fyrir að menn hafi verið að halda öðru fram,“ segir Jóhannes.

Upplýsingar um mál munu birtast á lögregluvefnum og á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Eins og áður hefur verið sagt var eitt kynferðisbrotamál til rannsóknar hjá lögreglu. Segir Jóhannes að málið sé upplýst. Eins og Vísir greindi frá var þolandi færður á neyðarmóttöku en sakborningi hefur verið sleppt úr haldi. Spurður hvort ekki hafi verið ástæða til að halda sakborningi lengur segir Jóhannes að ekki hafi verið þörf á því vegna rannsóknarhagsmuna og að málsatvik hafi verið nokkuð ljós.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×