Eins og Vísir greindi frá fyrr í morgun var mikill erill hjá lögreglunni á Suðurlandi síðustu nótt. Allt tiltækt lið lögreglu á starfsstöðvum á Selfossi og Hvolsvelli var í verkefnum á Flúðum þar sem mikill mannfjöldi gisti á tjaldsvæðinu.
Ölvun og fíkniefnaneysla var áberandi meðal gesta og hafði lögregla allnokkur afskipti af ósjálfbjarga einstaklingum sem og einstaklingum í annarlegu ástandi.
Talsvert var um óspektir og háreisti á tjaldsvæðinu sem og áflog og voru miklar annir hjá lögreglumönnum við að stilla til friðar á tjaldsvæðum og fyrirbyggja að uppúr syði meðal gesta. Eftir nóttina gistu fjórir einstaklingar fangageymslur á Selfossi.
Sveinn Kristján, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að ástandið sé allt annað núna. „Það er bara þokkalegt ástand hérna núna. Unga fólkið er að týnast í burtu og allt að verða rólegra,“ segir Sveinn.
Þá segir Sveinn að fjöldi lögreglumanna á svæðinu verði óbreyttur fram til morguns.
Látunum að linna á Flúðum
Ingvar Þór Björnsson skrifar
