Innlent

Rotturnar sleikja líka sólina í borginni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rottur eru meira áberandi í borginni þegar hlýnar í veðri.
Rottur eru meira áberandi í borginni þegar hlýnar í veðri. vísir/gva
Líklega má skýra það að Vesturbæingar verði meira varir við rottugang núna en áður með því að þegar vel viðrar séu rottur meira á ferli. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, bendir á að ekki sé óeðlilegt að menn sjái rottur á þessum tíma þegar veðrið er hvað best.

Hanna Ólafsdóttir, blaðamaður sem býr í Vesturbænum, birti á Facebook-síðunni Vesturbær myndband af rottu við Holtsgötu á laugardaginn. Færslan fékk mikil viðbrögð innan hópsins. Hanna segist þó aðeins hafa séð rottu á ferli í Vesturbænum í þetta eina skipti. Í Face­book-hópnum má sjá nokkrar færslur frá öðrum notendum um rottugang á svæðinu síðustu vikur, sumar rotturnar hafa verið á lífi en aðrar dauðar.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.
Starfsmaður meindýravarna hjá Reykjavíkurborg segir ekki meiri rottugang í Vesturbænum en venjulega þrátt fyrir frásagnir af því. Fólk verði ef til vill meira vart við þær núna, en tilkynningum hefur ekki fjölgað hjá meindýravörnum Reykjavíkurborgar.

Að mati starfsmannsins gæti verið að fólk tæki meira eftir rottum vegna umfjöllunar um rottugang. Fólk sé farið að líta sér nær og skoða heimahverfið meira.

Bjarni telur það ekki rétt að rottugangur hafi aukist. „Þegar það verður vart við rottur þá hefur fólk yfirleitt samband við meindýraeyða borgarinnar þannig að þeir eru með ansi góða skráningu á því sem er að gerast.“

Þegar tilkynnt sé um rottugang mæti meindýraeyðar og setji upp gildrur. „En síðan er eitrað í skolpbrunnana á sumrin til þess að halda rottum í skefjum. Engin hætta er á því að gæludýr komist í slíkt eitur,“ segir Bjarni.

Hann bendir á að rottur séu meira á ferli í góðu veðri. „Það er kannski mikið af opnum húsgrunnum vegna fjölda framkvæmda sem eru í gangi í Reykjavík. Þegar er verið að sinna viðhaldi hér og þar og skolpið er kannski opnað þá geta þær jafnvel flúið og farið á stjá. Þannig að það er ekki óeðlilegt að menn sjái rottur á þessum tíma þegar veðrið er hvað best.

Mikilvægt er að fólk láti meindýravarnir vita þegar það verður vart við rottur. Hægt er að finna síma hjá meindýravörnum á síðu borgarinnar,“ segir Bjarni Brynjólfsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×