Tónlist

Radiohead kom aðdáendum á óvart með nýju myndbandi við gamalt lag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lagalisti viðhafnarútgáfunnar.
Lagalisti viðhafnarútgáfunnar.

Breska hljómsveitin Radiohead kom aðdáendum sínum á óvart í dag með því að gefa út myndband fyrir hið 21 árs gamla lag I Promise. Lagið er hluti af sérstakri viðhafnarútgáfu hljómsveitarinnar af plötunni Ok Computer sem kemur út síðar í mánuðinum.

Þar má finna ýmis góðgæti fyrir aðdáendur Radiohead, þar á meðal þrjú lög sem tekin voru upp þegar hljómsveitin tók upp Ok Computer. Lögin þrjú hafa hins vegar ekki verið gefin út áður. Svo virðist sem að liðsmenn Radiohead hafi tekið forskot á sæluna og hafa þeir látið útbúa myndband fyrir I Promise, auk þess sem að það er orðið aðgengilegt á streymisveitum á borð við Spotify.

Í myndbandinu, sem leikstýrt er af Michal Marczak, má sjá fólk ferðast í strætó seint að nóttu. Ekki er þó allt sem sýnist.

Á BBC í gær kom fram að liðsmenn Radiohead hafi verið sérstaklega ánægðir með að upptökur af I Promise hafi fundist við gerð viðhafnarútgáfunnar, þeir hafi talið að upptakan væri týnd og tröllum gegin.

Alls fylgja viðhafnarútgáfunni átta b-hliðar og þrjú áður óútgefin lög, ásamt ýmsu öðru, þar á meðal 104 blaðsíður úr dagbók Thom Yorke, söngvara hljómsveitarinnar. Þá má einnig finna upptöku af laginu Lift sem liðsmenn sveitarinnar segja að hefði gert hljómsveitina of vinsæla, hefði það komið út.
 


Tengdar fréttir

Lagið sem hefði gert Radiohead of vinsæla loks að koma út

Síðar í þessum mánuði verða tuttugu ár frá því að meistaraverk Radiohead, platan OK Computer, var gefin út. Til þess að minnast þess áfanga mun hljómsveitin gefa út viðhafnarútgáfu af plötunni þar sem með fylgja lög sem tekin voru upp á sama tíma og OK Computer en fengu ekki að að fljóta með á plötunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira