Innlent

Ráðleggur stjórnvöldum að stöðva leyfisveitingar til sjókvíalaxeldis

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Laxeldi í sjókvíum er vaxandi atvinnugrein á Íslandi.
Laxeldi í sjókvíum er vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Vísir/pjetur

Erfðanefnd landbúnaðarins telur að áætlanir um stóraukið laxeldi í sjókvíum hafi ófyrirséðar afleiðingar og ráðleggur stöðvun á útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum þar til nánari þekkingar hefur verið aflað á umhverfisáhrifunum.

Laxeldi í sjókvíum er vaxandi atvinnugrein á Íslandi en útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum við Íslandsstrendur hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Erfðanefnd landbúnaðarins er opinber nefnd sem annast samráð innanlands um varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði og stuðlar að kynningu og fræðslu til stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings um erfðaauðlindir í landbúnaði og gildi þeirra.

Erfðanefndin hefur þungar áhyggjur af stöðu íslenskra laxastofna vegna mögulegra áhrif laxeldis í sjókvíum af erlendum uppruna. Þetta kemur fram í nýju áliti nefndarinnar sem birtist á heimasíðu hennar. Þar segir að með hliðsjón af þekkingu á áhrifum eldislaxa á villta laxastofna og varúðarreglu náttúruverndarlaga leggist nefndin gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur.

Nefndin telur að eldi á frjóum laxi í sjókvíum geti valdið óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna með ófyrirséðum afleiðingum. Þessi stefna samrýmist jafnframt ekki markmiðum laga um fiskeldi, laga um náttúruvernd og samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að stöðva útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum þar til nánari  þekkingar hefur verið aflað á umhverfisáhrifum. Að mati nefndarinnar er frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum uppruna í sjókvíum óforsvaranleg miðað við stöðu leyfisveitinga og skorti á upplýsingum um áhrif eldisins á villta laxastofna í íslenskum ám. 

Segir álitið afdráttarlaust

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að álit nefndarinnar sé afdráttarlaust. „Það er nú að störfum starfhópur um stefnumótun í fiskeldi sem skilar í sumar. Hún byggir meðal annars , að því er ég best veit, niðurstöðu sína á áhættumati meðal annars frá Hafró. Við bíðum einfaldlega eftir þeirri niðurstöðu. En mér sýnist þessi niðurstaða erfðanefndarinnar vera mjög skýr,“ segir Þorgerður og bætir við að nefndin virðist einnig gera ríkar kröfur til greinarinnar.

Þorgerður Katrín sagði í viðtali við fréttastofuna hinn 4. apríl síðastliðinn að hún vildi hægja á útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum á meðan starfshópur ráðherra væri að störfum. Matvælastofnun gefur leyfin út. Stofnunin sem er sjálfstæð að lögum brást í raun og veru ekki við afstöðu ráðherrans og lauk vinnu við útgáfu þeirra leyfa sem voru þegar í umsóknarferli.

„Ég veit einfaldlega að MAST er að vanda sig í sínum verkum og í sinni stjórnsýslu og hefur fagleg sjónarmið að leiðarljósi þegar hún tekur afstöðu. Það á hún að gera,“ segir Þorgerður Katrín, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.


Tengdar fréttir

Vill hægja á útgáfum leyfa til laxeldis meðan stefnan er mótuð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill að hægt verði á útgáfu nýrra leyfa til sjókvíalaxeldis þangað til skýrsla um framtíðarstefnu í greininni liggur fyrir. Blóðsýking sem kom upp í sjókvíalaxeldi í Færeyjum þurrkaði út 63 milljarða króna verðmæti í kauphöllinni í Osló vegna verðfalls á fyrirtækjum sem rækta lax í sjó.

Dýralæknir fiskisjúkdóma hjá MAST hefur persónulegan hag af vexti laxeldis

Sérstakur dýralæknir fiskisjúkdóma hefur eftirlit með starfsemi laxeldisfyrirtækjanna. Samhliða starfi sínu hjá Matvælastofnun hefur hann selt bóluefni sem fiskeldisfyrirtækin þurfa að nota til að geta ræktað heilbrigðan lax. Hann hefur því haft fjárhagslegan ávinning af því að atvinnugreinin stækki hér á landi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.