Innlent

Sendiherra Íslands í London: "Orðlaus yfir þessum óhugnaði“

Atli Ísleifsson og Ásgeir Erlendsson skrifa
Þórður Ægir Óskarsson er sendiherra Íslands í London.
Þórður Ægir Óskarsson er sendiherra Íslands í London. Vísir/afp
Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í London, segist vera orðlaus yfir þeim óhugnaði sem átti sér stað í gær. Hann segir að lífið hafi gengið sinn vanagang í borginni í morgun en telur að þingkosningarnar sem fram fara á fimmtudag muni mögulega snúast meira um öryggismál en áður.

„Í raun er maður bara orðlaus yfir þessum óhugnaði, að þetta skuli skella á svona skömmu eftir hörmungarnar í Manchester, það er ekkert hægt að segja af viti undir svona kringumstæðum,“ segir Þórður Ægir.

Hvernig er andrúmsloftið í borginni?

„Það er voðalega erfitt að meta. Atburðurinn er náttúrulega enn að þróast í fjölmiðlum. Ég átti leið framhjá Harrod‘s í morgun, sem er ekki langt frá sendiráðinu. Það var eins og venjulegur dagur. Túristarnir farnir að safnast saman fyrir utan búðina áður en hún opnaði og það var ekki að sjá nein merki um að það væri neitt óöryggi yfir hópnum.“

Nú er þetta þriðja árásin sem gerð er í Bretlandi á þremur mánuðum, önnur á tveimur vikum. Telur þú að þetta komi til með að skapa meira óöryggi hjá Bretum?

„Já, ég er alveg viss um það. Sérstaklega þegar þú sérð hvers konar aðferðir eru notaðar,“ segir Þórður Ægir.

Hann segir að eftir árásina í Manchester hafi aukin umræða verið um öryggismál, en eftir árásina í gærkvöldi kunni kosningabaráttan að stærstum hluta farið að snúast um öryggismál.

Þingkosningar fara fram í Bretlandi fimmtudaginn 8. júní.


Tengdar fréttir

Guðni sendir samúðarkveðju til Breta

Guðni Th. Jóhannesson forseti sendi í morgun samúðarkveðju sína og íslensku þjóðarinnar til Elísabetar II Bretadrottningar vegna hryðjuverksins sem framið var í London í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×