Innlent

Útgjöld til lyfja þau sömu síðan 2009

Sveinn Arnarsson skrifar
Lyfjakostnaður hins opinbera, þar með talið S-lyfja, hefur hækkað um 0,1 prósent frá árinu 2009
Lyfjakostnaður hins opinbera, þar með talið S-lyfja, hefur hækkað um 0,1 prósent frá árinu 2009 Vísir/Pjetur
Lyfjakostnaður hins opinbera, þar með talið S-lyfja, hefur hækkað um 0,1 prósent frá árinu 2009 á meðan útgjöld til heilbrigðismála hafa aukist um 44 prósent. Að mati Félags atvinnurekenda sýnir það glögglega að lyfjakaup eru ekki að sliga heilbrigðiskerfið eins og menn vilja láta í veðri vaka á stundum.

Félagið hefur sent Alþingi umsögn um lyfjastefnu til ársins 2022 sem nú er í meðferð velferðarnefndar þingsins. „Þegar fjallað er um ný og dýr lyf má jafnframt ekki gleyma því að um er að ræða ný og betri lyf,“ segir í umsögn félagsins.

Jakob Falur Garðarsson, formaður Frumtaka - samtaka lyfjaframleiðenda
Á síðasta ári var kostnaður hins opinbera við lyfjakaup um 15 og hálfur milljarður en útgjöld til heilbrigðismála voru samtals um 170 milljarðar. Því er lyfjakostnaður undir tíund útgjalda til málaflokksins í heild sinni.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur lofað auknu fjármagni til lyfjakaupa en dæmi eru um að krabbameinslæknar geti ekki veitt sjúklingum sínum þau krabbameinslyf sem læknarnir telja heppilegust í meðferð sjúklinga.

„Útgjöld hins opinbera til lyfja sem hlutfall af heilbrigðisútgjöldum almennt, hafa lækkað á undanförnum árum. Samt erum við langt á eftir nágrannalöndunum varðandi aðgengi að nýjum lyfjum. Mánuðir eru nú liðnir frá því að auknu fjármagni var lofað í málaflokkinn og enn hefur ekkert gerst. Skýr lyfjastefna er ágæt, en skýrum orðum verða auðvitað að fylgja skýrar efndir,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×