Innlent

Draga þurfi úr flugumferð til landsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðamenn á Þingvöllum. Ríkisstjórnin ætlar að leggja meira fé í landvörslu.
Ferðamenn á Þingvöllum. Ríkisstjórnin ætlar að leggja meira fé í landvörslu. Vísir/Anton Brink
Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir ljóst að draga þurfi úr flugumferð til landsins í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kom fram í máli hans á ársfundi stofnunarinnar á Grand hótel í morgun.

Í erindi Ólafs kom fram að losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgögnum vegi þyngst á Íslandi þegar litið er fram hjá stóriðju. Fjöldi bílaleigubíla hafi þrefaldast á sama tíma og ferðamönnum hafi fjölgað um 277% frá 2011. Nú sé svo komið að einn af hverjum tíu bílum í landinu séu bílaleigubílar.

Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum væri nauðsynlegt að draga úr flugumferð til og frá landinu en 90% ferðamanna komi til Íslands með flugvélum. Í því skyni þyrfti að horfa til þess að þróa Ísland sem áfangastað til lengri dvalar en ekki sem stoppistöð, endurnýjanlegrar orku í samgöngum og vistvænnar ferðaþjónustu.

Þema fundarins var loftslagsmál og lagði Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra áherslu á að ferðamennska á Íslandi yrði þróuð áfram á umhverfisvænan hátt. Stefnan væri að ferðamenn gætu ferðast um á rafrútum og bílum.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag ákvað ríkisstjórnin að leggja 160 milljónir aukalega til landvörslu. Björt minntist á þetta í ávarpi sínu og sagði um 70% aukningu frá því að fé var bætt í málaflokkinn í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×