Innlent

Svona lítur neyðarvegabréfið út

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Upplýsingar eru handskrifaðar inn í neyðarvegabréfið.
Upplýsingar eru handskrifaðar inn í neyðarvegabréfið.
Upplýsingar í íslenska neyðarvegabréfið eru handskrifaðar og passamynd af viðkomandi hengd inn í bókina, en að öðru leyti er það svipað og almenn vegabréf. Þjóðskrá hefur fengið nokkrar fyrirspurnir vegna málsins og sendi því meðfylgjandi myndir fólki til upplýsinga.

Bréfin eru talin fullgild ferðaskilríki í Evrópu en ekki nægilega örugg utan álfunnar.
Greint var frá því í dag að næstu vikur verði aðeins hægt að fá svokölluð neyðarvegabréf. Þjóðskrá Íslands átti von á að fá þrjátíu þúsund vegabréfabækur frá framleiðanda þeirra í Kanada í byrjun þessa mánaðar en vegna bruna í prentsmiðjunni á síðasta ári hafa orðið tafir á afhendingu bréfanna.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, sagði í samtali við fréttastofu í dag að enginn þurfi að óttast að fá ekki vegabréf í tíma þótt sumir verði að láta sér neyðarvegabréfin duga. Þau séu talin fullgild ferðaskilríki í Evrópu en ekki nægilega örugg utan álfunnar og þá sérstaklega í Bandaríkjunum.

Á meðan þetta ástand varir þurfa umsækjendur um vegabréf að fylla út eyðublað á vef Þjóðskrár, Skrá.is, þar sem brottfarardagur þeirra er skráður og verður útgáfu almennra vegabréfa og eftir atvikum neyðarvegabréfa forgangsraðað miðað við hvað skammt er til brottfarar.


Tengdar fréttir

Útgáfu vegabréfa forgangsraðað eftir brottfarardegi

Þjóðskrá Íslands mun forgangsraða útgáfu nýrra vegabréfa næstu fjórar vikurnar eftir áætlaðri brottför fólks til annarra landa, vegna skorts á nýjum vegabréfum. Forstjóri Þjóðskrár segir að enginn þurfi þó að óttast að fá ekki vegabréf í tíma þótt sumir verði að láta sér neyðarvegabréf duga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×