Innlent

Hver einasta framkvæmd myndi gleypa allt vegaféð

Svavar Hávarðsson skrifar
Ráðherra telur áratugi munu líða áður en samgöngubætur verða að veruleika, nema aðkoma einkaaðila komi til.
Ráðherra telur áratugi munu líða áður en samgöngubætur verða að veruleika, nema aðkoma einkaaðila komi til. vísir/gva
Þær framkvæmdir sem ráðast þarf í til að bæta samgöngur út frá höfuðborgarsvæðinu kosta meira, hver um sig, en allt vegafé á fjárlögum sem ætlað er til nýframkvæmda. Ráðherra telur að gagnrýni á uppbyggingu með veggjöldum sé ótímabær – dæma skuli þegar niðurstöður rannsóknarvinnu liggja fyrir.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er að störfum starfshópur samgönguráðherra sem er að greina hvernig umfangsmiklum framkvæmdum við stofnleiðir út frá höfuð­borgarsvæðinu verði best háttað. Starfshópurinn á að vinna hratt og skilar af sér á næstu vikum. Á þessu ári sé fjárveiting til nýframkvæmda á öllu landinu um ellefu milljarðar króna.

Á sama tíma er starfshópurinn að vega og meta samgöngubætur sem eru af stærðargráðunni 100 milljarðar króna – er gróft mat Jóns Gunnarssonar, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Það eru meðal annars Sundabraut, ný Hvalfjarðargöng, tvöföldun eða 2+1 vegur upp í Borgarnes, tvöföldun vegarins til Keflavíkur og tvöföldun vegarins austur fyrir Selfoss með nýrri brú á Ölfusá.

Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitastjórarmálavísir/vilhelm
Í skriflegu svari Jóns við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að þessar samgöngubætur verði ekki kláraðar í nánustu framtíð að óbreyttu – enda kostnaðurinn níföld sú upphæð sem rennur til nýframkvæmda á fjárlögum. Því vill Jón láta kanna aðkomu einkaaðila og veggjöld sem innheimt yrðu á þessum leiðum. Þörfin sé gríðarleg, og rökin ekki síst öryggi vegfarenda til viðbótar við þau sem lúta að hagræði þeirra sem eru á þessari leið.

Spurður um vísbendingar um að almenningur leggist gegn slíkri fjármögnun framkvæmda og gjaldtöku segir Jón að á meðan hvorki liggur fyrir hvernig gjaldtöku yrði háttað, né hvað fengist fyrir veggjöldin, verði menn að staldra við og gaumgæfa rökin.

„Nánari upplýsingar um það munu ekki liggja fyrir fyrr en skýrsla starfshópsins hefur verið rýnd og tillögur gerðar á grundvelli hennar,“ segir Jón sem sér fyrir sér „styttri ferðatíma, styttingu vegalengda, sparnað í eldsneyti, minnkun útblásturs og stóraukið umferðaröryggi. Mögulega gætu trygginga­iðgjöld lækkað í kjölfarið með minni slysatíðni. Ég vil gjarnan hvetja allan almenning til þess að bíða eftir því að sjá hvað er í pakkanum, en spara sér það í bili að vera á móti einhverju sem það veit ekki hvað er.“

Verði ráðist í þessar framkvæmdir til hliðar við samgönguáætlun, eins og Jón segir, losnar um vegafé til að taka stærri skref í uppbyggingu á landsbyggðinni en annars er mögulegt. Í ferðum hans hafi þetta mál hvarvetna borið á góma; fólk vilji vita líklegt gjald og spyrji hvort unnt sé að hraða tilteknum framkvæmdum á landsbyggðinni með því að leggja á veggjöld – sem margir eru fúsir til yrði það til þess að ljúka verkefnum fyrr en ella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×