Innlent

Skilti ætlað að halda Kínverjum frá Kvíabryggju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kvíabryggja.
Kvíabryggja. Vísir/Pjetur

Vegagerðin hefur sett upp skilti við afleggjarann af fangelsinu við Kvíabryggju á Snæfellsnesi. Skiltinu er ætlað að stemma stigu við komu erlendra ferðamanna sem hafa áhuga á því berja Kirkjufell augum sem er í næsta nágrenni við fangelsið.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Afstöðu, félags fanga, þar sem segir að undanfarin ár hafi „vandi fangavarða á Kvíabryggju aðallega legið í því að halda erlendum ferðamönnum, þá helst Kínverjum, utan við svæðið“ enda sé sjaldgæft að fangar leggi á flótta frá Kvíabryggju.

Segir einnig að það sé daglegur viðburður að ferðamenn séu reknir af svæðinu og dæmi sé um að heilu rúturnar hafi komið á svæðið, allt í von um að ná sem bestri mynd af Kirkjufellinu sem er afar vinsælt viðfangsefni ljósmyndara.

Í samtali við Vísi segir Birgir Guðmundsson, forstöðumaður fangelsins, að það komi vissulega fyrir að ferðamenn komi að fangelsinu og með skiltinu sé verið að reyna að fá þá til þess að snúa við.

„Það er verið að sjá hvort að þetta virkar. Það er mikið af ferðafólki á ferðinni og það fer út um allt,“ segir Birgir. „Kirkjufellið er bara við þjóðveginn þannig að þeir þurfa ekkert að koma hingað.“
Birgir segir að ferðamennirnir hafi þó ekki skapað vandræði með komu sinni að Kvíabryggju en að yfirvöld vilji þó helst að fangarnir fái frið frá ágangi ferðamanna. Þá vilji hann síður láta loka veginum enda sé Kvíabryggja svokallað opið fangelsi.

Facebook-færslu Afstöðu má sjá hér að neðan, sem og mynd af skiltinu góða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.