Innlent

Biskup segir ríkið skulda kirkjunni um 1,7 milljarða árlega

Sveinn Arnarsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup þjóðkirkjunnar.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup þjóðkirkjunnar.
Þjóðkirkjan á Íslandi gagnrýnir fjármálaáætlun Alþingis harðlega í innsendri umsögn kirkjuráðs og Biskupsstofu en áætlunin liggur nú fyrir til meðferðar þingsins.

Segir í umsögn biskups Íslands og kirkjuráðs hinnar íslensku þjóðkirkju að ríkissjóður skuldi kirkjunni tæplega 1,7 milljarða króna á fjárlögum ársins í ár vegna vanefnda fimm liða í fjárlögum. Eru það fjárlagaliðir um laun presta, kristnisjóð, sóknargjöld, kirkjumálasjóð og jöfnunarsjóð sókna.

Með því að uppfæra tölur ekki samkvæmt reiknilíkani sem á að meta fjárhæðir til kirkjunnar hafi þannig myndast skuld ríkissjóðs við kirkjuna.

„Það vantar mjög verulega upp á að það sé staðið við skuldbindingar samkvæmt lögum,“ segir Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs. „Það var neyðarástand árið 2008, en ekki í dag. Ef menn ætla ekki að standa við skuldbindingar þá verða menn að finna aðrar ástæður fyrir skerðingunni.“

Umsögn þjóðkirkjunnar hvílir að mati kirkjunnar á tveimur staðreyndum. Sú fyrri er að árið 1997 var gerður samningur milli ríkis og kirkju um notkun reiknilíkans við að framreikna upphæðir til kirkjunnar sem síðan var tekið úr sambandi árið 2008 í hruninu. Seinni staðreyndin að mati kirkjuráðs er að sóknargjöld hafi ekki að fullu verið flutt til kirkjunnar heldur sitji ár hvert hluti þeirra eftir í ríkissjóði til almennra verka.

2.500 einstaklingar gengu úr þjóðkirkjunni í fyrra. Þrátt fyrir stöðuga fækkun jukust framlögin árið 2017 um rúmar eitt hundrað milljónir frá fyrra ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×