Innlent

Ökumaðurinn sem velti bílnum gaf sig fram við lögreglu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi bílveltunnar á Hringbraut í dag.
Frá vettvangi bílveltunnar á Hringbraut í dag. vísir/stefán
Maður sem velti bíl á Hringbraut í Vesturbæ Reykjavíkur í hádeginu í dag var farinn af vettvangi þegar lögreglan kom á staðinn.  Í dagbók lögreglu segir að bifreiðin hafi verið mikið skemmd, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, og ummerki um að ökumaðurinn hefði slasast.

Tæknideild lögreglu sá um vettvangsrannsókn en ökumaðurinn hafði svo sjálfur samband við lögreglu klukkan rúmlega 16 og gaf sig fram. Málið er í rannsókn.

Eins og sést skemmdist bíllinn mikið í veltunni.vísir/stefán
Um hádegisbil var svo óskað eftir aðstoð lögreglunnar vegna heimilisofbeldis. Ölvuð kona á fertugsaldri var handtekin og vistuð í fangageymslum.

Þá var um klukkan hálf tvö óskað eftir aðstoð lögreglunnar í verslun á Laugavegi vegna manns í annarlegu ástandi sem væri að angra starfsfólk og viðskiptavini. Lögreglan hafði afskipti af manninum og vísaði honum í burtu.

Klukkan 12:38 var svo óskað eftir aðstoð lögreglu í verslun í Árbæ vegna ölvaðs manns sem var til vandræða. Maðurinn var í slæmu ölvunarástandi að því er segir í dagbók lögreglu og tók afskiptum hennar ekki vel. Hann var handtekinn og verður vistaður í fangageymslu þar til rennur af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×