Nauðsynlegt er að vera á varðbergi fyrir hagræðingu úrslita í íþróttum og skoða þarf að gera úrbætur á löggjöf og reglum um veðmál og hagræðingu.
Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Sveins Helgasonar, sérfræðings hjá innanríkisráðuneytinu, á málþingi um hagræðingu íþróttaleikja sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í gær.
Fréttablaðið fjallaði í vikunni um leik Fylkis og Fram í öðrum flokki í knattspyrnu karla sem fjöldi tippara græddi vel á þar sem þeir höfðu meiri upplýsingar um leikinn en veðbankar. Sveinn benti í erindi sínu á að veðbankar hefðu fært sig yfir á netið og hefði það gjörbreytt veðmálastarfsemi. Ísland væri ekki lengur eyland.
Auk þess að skoða úrbætur á löggjöf og reglum telur Sveinn mikilvægt að styrkja samvinnu og samráð jafnt innanlands og við erlenda aðila. Í nýju ógnarmati Europol kemur fram að hagræðing íþróttaleikja í Evrópu nái aðallega til fótbolta. Þó sé sjónum einnig beint að tennis, snóker og jafnvel pílukasti. Í sumum tilfellum hafi glæpasamtök fest rætur innan íþróttafélaga til þess að auðvelda sér peningaþvætti og hagræðingu leikja.
Þá kemur fram í ógnarmatinu að glæpasamtök hefðu fest rætur í fjölda evrópskra knattspyrnufélaga og þannig þvættað milljónir evra Nýttu glæpasamtökin milliliði til þess að kaupa knattspyrnufélög sem voru í fjárhagsvandræðum. Vegna lélegs eftirlits hefði svo verið hægt að þvætta peningana með því að kaupa og selja leikmenn og með því að selja sjónvarpsréttindi.
Vilja lög um veðmál

Tengdar fréttir

Markaðssetningu erlendra veðbanka sé beint að íslenskum ungmennum
Erlendir veðbankar sem bjóða tippurum upp á að veðja á leiki yngri flokka í íslenskri knattspyrnu gera það til þess að lokka inn yngri íslenska tippara. Þetta er mat Péturs Hrafns Sigurðssonar, deildarstjóra hjá Íslenskum getraunum.

Tipparar mokgræddu á unglingaleik í Árbæ
Fjárhættuspilarar fá hagstæða stuðla á leiki í 2. flokki þar sem veðmálafyrirtæki vita síður af meiðslum og fjarvistum leikmanna. KSÍ er uggandi yfir veðmálum í yngri flokkum. Faðir leikmanns óttast að leikmönnum verði mútað.