Innlent

Tveggja og hálfs árs fangelsi og 300 milljón króna sekt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Friðjón þarf að greiða 300 milljónir króna innan fjögurra vikna. Annrars bætast tólf mánuðir við fangelsisdóm hans.
Friðjón þarf að greiða 300 milljónir króna innan fjögurra vikna. Annrars bætast tólf mánuðir við fangelsisdóm hans. vísir/vilhelm

Friðrik Björgvin Gunnarsson, framkvæmdastjóri félaganna Gegn einokun og 1949, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum og peningaþvætti.

Friðjóni var jafnframt gert að greiða rúmar 307 milljónir króna í ríkissjóð innan fjögurra vikna. Annars bætast tólf mánuðir við fangelsisdóm hans. Þá var eiginkona hans, Harpa Hlynsdóttir, dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Gerðar voru upptækar tæplega fimm milljónir króna við rannsókn málsins, og fjöldi raftækja á borð við fartölvur, leikjatölvur, farsíma og fleira.

Skattsvik Friðjóns nema um 100 milljónum króna. Honum var gefið að sök að hafa vantalið virðisaukaskatt vegna einkahlutafélagsins Gegn einokun á árunum 2012 og 2013 en samkvæmt ákæru nam upphæðin 83,5 milljónum króna. Þá var hann sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna einkahlutafélagsins 1949 en sú upphæð nam um 2,5 milljónum króna.

Jafnframt var hann sakaður um að hafa ekki talið fram tekjur sem nema rúmlega 41 milljón króna. Með því sveik hann tæplega 16,5 milljónir undan skatti þar sem hann greiddi hvorki tekjuskatt né útsvar.

Hjónin voru svo bæði ákærð fyrir peningaþvætti, en Friðjóni var gefið að sök að hafa lagt eða látið leggja rúmlega 21 milljón króna, sem var hluti ávinningsins af skattsvikunum, inn á bankareikning sinn hjá Landsbankanum. Þar átti hann að hafa geymt peninginn þar til hann ráðstafaði honum til þess að greiða kreditkortareikning þeirra hjóna.

Að lokum var hann sakaður um að hafa lagt tæplega 11,5 milljónir króna inn á bankareikning eiginkonu sinnar og var hún einnig ákærð fyrir peningaþvætti vegna þessa þar sem hún veitti upphæðinni viðtöku á bankareikningi sínum.

Undanfarin ár hafa ítrekað komið upp ásakanir á hendur Friðjóni um kennitöluflakk vegna viðskipta hans. Þannig var greint frá því í í DV ágúst 2014 að 12 af 17 hlutafélögum sem Friðjón tengist hafi verið lýst gjaldþrota.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.