Innlent

Látið reyna á alþjóðlegt samstarf um lyfjainnkaup

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands var um 15,1 milljarður króna árið 2015.
Lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands var um 15,1 milljarður króna árið 2015. vísir/anton brink
Velferðarráðuneytið gerir ráð fyrir að látið verði reyna á alþjóðlegt samstarf um útboð lyfjakaupa á næstu mánuðum. Þetta kom fram í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis í febrúar.

Í svari ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar kom jafnframt fram að það hefði á undanförnum misserum tekið þátt í norrænu samstarfi um lyfjamál þar sem m.a. hefði verið lögð áhersla á samstarf um verðlagningu og innleiðingu nýrra og dýrra lyfja, útboð og innkaup. Vonast yrði til að þetta samstarf skilaði árangri á árinu.

Með lögum frá því í fyrra um opinber innkaup hefði dregið úr hindrunum sem áður voru í vegi alþjóðlegs samstarfs um útboð lyfjakaupa.

Í skýrslu sinni minnir Ríkisendurskoðun á að heimild til útboðs og innkaupa innan Evrópska efnahagssvæðisins hafi verið fyrir hendi áður en ný lög um opinber innkaup tóku gildi. Breytingarnar sem ráðuneytið vísi nú til að hafi dregið úr hindrunum við alþjóðlegt samstarf felist fyrst og fremst í því að Samkeppniseftirlitið veitir nú álit en ekki staðfestingu á því samkeppnismati sem gera þarf í aðdraganda útboðs. Því ætti að vera hægt að ljúka útboðsferlinu óháð niðurstöðu þess.

Ríkisendurskoðun bendir á að lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands hafi verið 15,1 milljarður króna árið 2015.

Heilbrigðisstofnanir hafi ótvírætt tækifæri til að draga úr þeim kostnaði með fjölþjóðlegu samstarfi við lyfjaútboð. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.