Innlent

Sigríður Björk segir eina kvörtun vegna meints eineltis af hennar hálfu hafa borist innanríkisráðuneytinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. vísir/anton brink
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ein kvörtun vegna meints eineltis af hennar hálfu hafi borist innanríkisráðuneytinu, nú dómsmálaráðuneyti, og að fyrir liggi drög að niðurstöðu óháðs sérfræðings vegna hennar.

Þá hafi fagráði lögreglunnar ekki borist nein kvörtun vegna eineltis af hálfu lögreglustjórans eftir því sem hann kemst næst en hlutverk ráðsins er að taka við fyrirspurnum og tilkynningum frá þolendum og öðru starfsfólki lögreglunnar vegna beinnar og óbeinnar mismununar.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Sigríður Björk sendi starfsfólki lögreglunnar í morgun en hún ræðir þar þessi mál vegna fréttar RÚV um liðna helgi af því að hátt í fimmtíu lögreglumenn og aðrir starfsmenn embættisins hafi kvartað undan samskiptum við lögreglustjórann við Landssamband lögreglumanna. Segir Sigríður Björk í tölvupóstinum að hún haldi að þetta sé í þriðja skiptið sem sama fréttin sé flutt.

Engin kvörtun vegna eineltis borist til fagráðs lögreglunnar

Vegna kvartananna sendi Landssambandið því innanríkisráðuneytinu bréf, fyrst í desember í fyrra og svo í janúar síðastliðnum, þar sem óskað var eftir því ráðuneytið rannsaki án tafar hvort Sigríður Björk hafi lagt starfsmenn sína í einelti.

 

RÚV óskaði eftir viðbrögðum Sigríðar Bjarkar vegna fréttarinnar og svaraði hún fréttamanni skriflega. Svarið birtir hún í tölvupóstinum sem hún sendi til starfsmanna í dag og minnir svo á tilvist fagráðs lögreglunnar.

Verklagsreglur ráðsins má bæði nálgast á innri og ytri vef lögreglunnar og segir Sigríður Björk að allt starfsfólk lögreglunnar eigi rétt á að fá bæði aðstoð og leiðsögn hjá fagráðinu. Fagráðið aðstoði svo viðkomandi við að meta aðstæður og ákveða frekari aðgerðir en gæti á því stigi trúnaðar.

Sigríður Björk rekur svo að engin kvörtun vegna eineltis af hennar hálfu hafi borist fagráðinu og ein kvörtun vegna meints eineltis hafi borist innanríkisráðuneytinu. Þá minnist hún jafnframt á tvö dómsmál sem tveir starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa höfðað gegn ríkinu, annars vegar vegna tímabundinnar vikningar úr starfi og hins vegar vegna tímabundins tilflutnings í önnur verkefni.

Áskilur sér rétt til að vernda hagsmuni embættisins

Auk þess minnist Sigríður Björk á kvartanir aðstoðarlögreglustjóra til dómsmálaráðuneytisins, meðal annars vegna skipulagsbreytinga árið 2015, og segist hún vona að nýr ráðherra, Sigríður Á. Andersen, muni finn lausn sem allir geti sætt sig við.

Lögreglustjóri segir síðan að öll þessi mál hafi verið rekin með einum eða öðrum hætti í fjölmiðlum en hún hafi forðast að ræða einstök starfsmannamál á vettvangi fjölmiðla. Hins vegar áskilji hún sér rétt til þess að vernda hagsmuni embættisins og benda á þær áskoranir sem lögreglan hafi átt við að etja.

Sigríður Björk vitnar svo í rannsókn sem gerð var árið 2012 „þar sem fram kom að 18% lögreglumanna töldu sig þolendur eineltis í lögreglunni, eða 24% kvenna og 17% karla. Í sömu rannsókn kom fram að tæplega 31% kvenna og 4% karla töldu sig þolendur kynferðislegrar áreitni í lögreglunni. Þrátt fyrir þessar sláandi tölur kom árið 2012 aðeins ein tilkynning um einelti til jafnréttisfulltrúa lögreglunnar og engin um kynferðislega áreitni, samkvæmt tölfræðiupplýsingum sem lögregluembættin safna saman.“

Þá segir hún ástæðu til að nefna það að ef menn óttist að fá ekki stöður hjá lögreglunni vegna kvartana þá fari óháð hæfnisnefnd yfir allar skipanir hjá embættinu. Að auki sé hægt að leita til Umboðsmanns Alþingis, kærunefndar jafnréttismála og eftir atvikum til dómstóla.


Tengdar fréttir

Lögreglustjóri sendir frá sér yfirlýsingu vegna ásakana um einelti

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta í gær þar sem kom fram að lögreglumaður hjá embættinu hefði kvartað til innanríkisráðuneytisins vegna eineltis lögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×