Innlent

Feðrum sem nýta rétt til fæðingarorlofs heldur áfram að fækka

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. Vísir/Ernir
Feðrum sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs heldur áfram að fækka, samkvæmt nýjum tölum frá Fæðingarorlofssjóði.

Níutíu prósent feðra tóku fæðingarorlof árið 2008, en 74 prósent á síðasta ári. Mæður axla meginábyrgð á ummönnun nýfæddra barna. Ríkisstjórnin ætlar að hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs upp í 600 þúsund krónur á næstu fimm árum.

Frá því hámarksgreiðslur hófu að skerðast hefur hlutfall feðra sem taka fæðingarorlof lækkað hratt, en árið 2015 nýttu um 80 prósent feðra þennan rétt sitt. Árið 2008 tóku feður að meðaltali 101 dag í fæðingarorlof, en í fyrra voru dagarnir 75.

Fimmtíu prósent feðra taka nú styttra orlof en þrjá mánuði, samanborið við 22 prósent árið 2008.

Alvarleg þróun

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, vonast til þess að þak á fæðingarorlofsgreiðslur verði orðnar 600 þúsund krónur á mánuði innan fimm ára.

„Þetta er auðvitað mjög alvarleg þróun sem veldur vonbrigðum en var kannski hætt við að gæti orðið raunin þegar fæðingarorlofskerfið var skorið svona mikið niður. Ég held hins vegar að það verði að horfa til þessara talna í því samhengi að á síðasta ári voru ennþá óbreyttar fjárhæðir, mjög lágar, en þær hafa verið hækkaðar myndarlega nú þegar, var gert undir lok síðasta árs þegar fæðingarorlofsgreiðslur hækkuðu í  500 þúsund krónur á mánuði að hámarki. Við erum með það á okkar stefnuskrá að hækka þessar greiðslur enn frekar og tryggja að við náum að minnsta kosti 600 þúsund króna markinu hvað hámarksgreiðslurnar varðar. Ég bind vonir við að það hjálpi okkur við að endurreisa kerfið,“ segir Þorsteinn.

Mæður axla meginábyrg

Mæður axla meginábyrgð á umönnun barna þar til dagvistunarúrræði taka við. Það hefur neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku þeirra og getur haft áhrif á starfsþróunarmöguleika og tækifæri. Hluti af vandanum er  að engin trygging er fyrir dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi hér á landi.

„Við erum auðvitað að horfa til þess hvernig getum við náð að tengja saman fæðingarorlof og dagvistunarúrræði sem sveitarfélögin bjóða upp á þannig að þau nái saman í tíma. Þar .arf að horfa til beggja þátta, bæði hvernig hægt er þá að bjóða dagvistun fyrr og aftur að hvaða marki er hægt að lengja fæðingarorlofið,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×