Vilhjálmur segir það ekki breyta því að fyrirtækið sé tilbúið til að setjast niður með bæjaryfirvöldum og Faxaflóahöfnum á grundvelli tillögu bæjaryfirvalda sem kynnt var eftir að HB Grandi gaf það út að til stæði að leggja landvinnsluna niður þar sem 93 starfsmenn fyrirtækisins starfa í dag.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær sagði Vilhjálmur að Skagamenn ættu ekki að gera sér miklar vonir um að samræður fyrirtækisins við bæjaryfirvöld og Faxaflóahafnir myndu skila árangri.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, spurður að því hvort það væri ekki hrein örvænting að verja miklum fjármunum í þessa framkvæmd, segir að hafa beri í huga að það sé ekki bærinn sem sé að fara í þessa framkvæmd heldur Faxaflóahafnir.
„Það hefur verið stefna Faxaflóahafna að bæta aðstöðuna á Akranesi. Ég tel þessum fjármunum í bætta hafnaraðstöðu á Akranesi vel varið, og að hún verði arðbær ekki aðeins fyrir bæjarfélagið heldur einnig HB Granda og Faxaflóahafnir.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu