Innlent

Prestshjónin á Staðastað: „Ef við förum þessa leið þá erum við að svíkja drenginn okkar“

Hulda Hólmkelsdóttir og Þórhildur Þorkelsdóttir skrifa
Sóknarprestur á Staðastað segir þjóðkirkjuna hafa brugðist fjölskyldu sinni eftir að upp komst um myglu í íbúðarhúsnæði á prestsetursjörðinni. Börn hans hafi hlotið skaða af. Kirkjan vill að presturinn skrifi undir plagg um að ekkert hafi verið að húsinu, þrátt fyrir að gögn sýni annað.

Páll Ágúst sigraði í prestskosningu 2013. Hann og kona hans, séra Karen Lind Ólafsdóttir, tóku þó ekki við íbúðarhúsinu á Staðastað fyrr en síðsumars 2014. „Það var sagt við mig að þetta hús væri fyrsta flokks og í toppstandi,“ segir hann.

Annað hafi þó fljótlega komið á daginn. Silfurskottur hafi verið á kreiki og brúnar doppur birst víða um húsið. Upp úr áramótum hafi verið komið mjög þungt loft í húsið og þau prestshjónin hafi stöðugt verið að þrífa og lofta út. Asmi sonar þeirra, sem hafi verið þriggja mánaða er hjónin fluttu með þrjú börn sín á Staðastað, hafi ágerst og hann orðið stöðugt óværari.

Páll Ágúst settist niður með Agnesi Sigurðardóttur Biskupi í október 2016 og fór yfir málið með henni. Svo fór að hún leysti hann undan búsetuskyldunni. Á fundi Kirkjuráðs nú í febrúar var rætt um að presturinn skilaði jörðinni. Í desember í fyrra fékk hann tilboð um að gera upp búið.

„Forsenda þess að þessi ábúð er gerð upp er semsagt sú að við viðurkennum að það hafi aldrei neitt verið að þessu húsi,“ segir Páll Ágúst.

Rætt var við þau Karen Lind og Pál Ágúst í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hægt er að sjá viðtalið í fullri lengd hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×