Innlent

Fannst látinn í Airbnb-íbúð í Salahverfi í Kópavogi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekki er talið að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.
Ekki er talið að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti. Vísir/Vihelm
Bandarískur karlmaður um þrítugt fannst látinn í Airbnb-íbúð í Salahverfi í Kópavogi á laugardagsmorgun. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá málinu á vef Stundarinnar.

Maðurinn var hér á ferð ásamt vinahópi sínum sem var samankominn hér á landi til að halda upp á afmæli. Félagar hans gátu ekki vakið hann að morgni laugardags en að sögn Gríms er ekki grunur í málinu um refsiverða háttsemi. Málið er engu að síður rannsakað líkt og önnur mannslát og er beðið niðurstöðu krufningar. Dánarorsök liggur því ekki fyrir.

Skýrsla var tekin af þeim sem voru með manninum á ferð hér á landi.

„Þarna var náttúrulega hópur manna og það var tekin skýrsla af þeim öllum þannig að það liggja fyrir upplýsingar frá samferðamönnum  hans,“ segir Grímur en hefur ekki nákvæmar upplýsingar um hversu margir þeir voru sem gáfu skýrslu.

Í frétt Stundarinnar er rætt við eiganda íbúðarinnar sem segir vinahópinn hafa verið í áfalli vegna málsins og fengið áfallahjálp vegna þess. Þá hafi þau sagt eigandanum að þau hafi ætlað sér að taka næstu flugvél heim en hópurinn kom hingað til lands frá Bandaríkjunum, Bretlandi sem og annars staðar frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×