Innlent

Samgönguráðherra segir slys á Reykjanesbraut kalla á tafarlausar aðgerðir

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Jón Gunnarsson samgönguráðherra blæs á gagnrýni um að farið sé á svig við lög með breytingum á forgangsröðun samgönguáætlunar. Þau slys sem orðið hafi á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi kalli hins vegar  á tafarlausar aðgerðir.

Jón hefur á undanförnum dögum sætt harðri gagnrýni vegna 10 milljarða króna niðurskurði á samgönguáætlun. Ákvörðun ráðherrans hefur komið illa við ýmis landsvæði til að mynda í Berufirði þar sem áformum ráðherrans var mótmælt með því að loka þjóðveginum.

Í gær var samgönguráðherra meðal annars sakaður af Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstri Grænna að ráðherra væri að kollvarpa þeirri framkvæmdaröð sem Alþingi hefði ákveðið og væri að fara  á svig við lög.

„Ég skil mjög vel gagnrýni sem kemur frá almenningi og víða um land. Gagnrýni í þinginu um að ég sé ekki að fara að lögum og sé að brjóta lög. Ég blæs á slíka gagnrýni,“ segir hann.

Jón segir að í gegnum tíðina hafi samgönguáætlun sjaldnast verið fullfjármöguð á fjárlögum. „Þá er þetta einmitt leiðin, að forgangsraða í þau verkefni sem að eru á samgönguáætlun þessa árs.“

Þá segir hann að í fjárlögum þessa árs hafi útgjöld ríkisins aukist mikið, miðað við síðasta ár og meira en hægt er að gera væntingar um á næsta ári, þá sérstaklega til heilbrigðis- og velferðarmála. Það hafi því þurft að skera niður á öðrum stöðum eins og í samgönguáætlun. Þrátt fyrir niðurskurð samgönguáætlunar verða settir 4,5 milljarðar til viðbótar við þá áætlun sem var á síðasta ári.

„Og stærsta viðbótin er auðvitað í viðhaldi vega sem er orðið mjög brýnt, og þessir staðir sem hafa verið mjög vanhaldnir í viðhaldi á undanförnum árum eins og Skógarstrandarvegur, Berufjarðarbotn og fleiri staðir, þar munum við sjá miklar breytingar í sumar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×