Innlent

Sjávarútvegsráðherra: Ekki þannig að menn stilli ríkinu upp við vegg á lokametrunum og segi „Komið með milljarðana“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, kveðst fyrst og fremst fara til fundar við sjómenn og útgerðarmenn í Karphúsinu í kvöld til þess að hlusta á deiluaðila. Rætt var við Þorgerði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hún var nýlent á Reykjavíkurflugvelli eftir að hafa verið á Ísafirði.

Hún kvaðst vona að það væri merki um að deilan væri að leysast að ráðherra væri að fara til fundar við deiluaðila.

„En þetta er ekki merki um að ríkisvaldið ætli að stíga inn í deiluna og endurtek það að það er af og frá að við séum að fara í sértækar aðgerðir,“ sagði Þorgerður en ítrekaði það sem hún hefur áður sagt að ríkisstjórnin sé tilbúin til að skoða almennar aðgerðir sem gagnast gætu fleiri stéttum.

Frá því var greint í dag að heildartap ríkissjóðs af því að gera fæðispeninga sjómanna skattfrjálsa yrði um 730 milljónir króna á ári og þá yrðu sveitarfélög af um 330 milljónum króna í útsvarstekjur.

Þorgerður vísaði í þessar tölur í kvöld en sagðist ekki vita hvað menn væru að tala um akkúrat núna í Karphúsinu.

„En ég vona að menn séu að ná saman. Það er samt ekki þannig að menn stilli ríkinu upp við vegg á lokametrunum og segi „Komið með milljarðana,““ sagði ráðherra.

Gera má ráð fyrir því að fundur í deilunni standi fram eftir kvöldi þar sem þess er freistað að ná samningi en sjómenn hafa nú verið í verkfalli í tvo mánuði með tilheyrandi tekjutap fyrir þá, fiskverkafólk og þjóðarbúið í heild.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.