Innlent

„Þetta er bara alveg stórkostlegt“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gleði og þakklæti efst í huga, segir sjávarútvegsráðherra.
Gleði og þakklæti efst í huga, segir sjávarútvegsráðherra. vísir/vilhelm
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra segir gleði og þakklæti efst í huga nú eftir að samkomulag hefur náðst í sjómannadeilunni. Viðsemjendur hafi staðið undir því trausti sem til þeirra hafi verið gert.

„Gleði og þakklæti. Það eru svona fyrstu viðbrögðin. Mér finnst útgerðarmenn og sjómenn, báðir deilendur, hafa sýnt það að þeir hafa risið svo sannarlega undir þessu trausti. Við erum búin að ná samkomulagi í þessari grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og það er alveg ótrúlega dýrmætt upp á framtíðina að gera,“ segir Þorgerður í samtali við fréttastofu.

Þorgerður segir mikilvægt að samningar skyldu hafa tekist án aðkomu ríkisins. „Það er mjög mikilvægt. Þetta eru skýr skilaboð til annarra erfiðra kjaradeilna sem fram undan eru. Það eru líka mikilvæg skilaboð fyrir greinina. Hún er ekki ríkisstyrkt, hefur ekki verið það, og eitt af því sem gerir sjávarútveginn okkar svona glæsilegan eins og raun ber vitni. Honum er vel stýrt. Þetta er öflug grein sem við höfum enn frekari sóknarfæri í og þessi samningur, þetta er bara alveg stórkostlegt,“ segir hún.

Deiluaðilar komust að samkomulagi seint í nótt en það hafði fyrst og fremst steytt á þeirri kröfu sjómanna að fá skattfrjálsa fæðispeninga. Niðurstaðan varð sú að sjómenn fá endurgjaldslaust fæði en samningurinn verður kynntur sjómönnum síðar í dag. Þá verða greidd atkvæði um samninginn í kvöld og á niðurstaða úr atkvæðagreiðslu að liggja fyrir annað kvöld.  Sjómenn hafa verið í verkfalli í tíu vikur, sem gerir það að lengsta verkfalli sögunnar.


Tengdar fréttir

Sjómannadeilan leyst

Sjómenn og útgerðarmenn skrifa undir nýjan kjarasamning.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.