Innlent

Þarf að svara fyrir orð sín og annarra eftir allt saman

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pétur Gunnlaugsson, dagskrárgerðamaður á Útvarpi Sögu og lögfræðingur.
Pétur Gunnlaugsson, dagskrárgerðamaður á Útvarpi Sögu og lögfræðingur. Útvarp Saga
Hæstiréttur hefur gert Héraðsdómi Reykjavíkur að taka ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur útvarpsmanninum Pétri Gunnlaugssyni til meðferðar. Pétur krafðist í vikunni afsökunarbeiðni frá lögreglustjóranum á hföuðborgarsvæðinu vegna málsins en það hefði valdið sér og Útvarpi Sögu stórskaða.

Pétur var ákærður fyrir ummæli sem féllu í þættinum „Línan er laus“ á Útvarpi Sögu á síðasta ári þar sem til umræðu var hinsegin kennsla í grunnskólum í Hafnarfirði. Pétur stýrði þættinum og var ákærður fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs með eigin ummælum og ummælum hlustenda.

Hæstiréttur á öndverðum meiði

„Hafi ummælin falið í sér háð, rógburð og smámun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra.“

Málinu varð vísað frá í héraði í vikunni meðal annars þar sem dómari taldi verulegan galla á ákærunni auk þess sem ekkert væri minnst á hatursorðræðu eða útbreiðslu haturs í þeirri grein laganna sem ákært var fyrir brot á. Þannig eigi ákærði erfitt með að verja sig ef óljóst er hvað hann á að hafa gerst sekur um.

Í dómi Hæstaréttar frá í gær segir að ákæran sé þannig úr garði gerð að samtöl varnaraðila við fjóra hlustendur Útvarps Sögu sem hringdu þangað í beinni útsendingu, væru tekin upp í heild sinni. Væru varnaraðila í senn gefin að sök tiltekin ummæli sín og að hafa með því að útvarpa ummælum viðmælenda sinna breitt út hatur í garð ákveðins þjóðfélagshóps.

Hæstiréttur segir ákæruna því skýra og að Pétri sé ekki gert torvelt að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum. Málið mun því verða tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Stórskaði að sögn Péturs

„Þetta er búið að stórskaða okkur, bæði mig, Útvarp Sögu og útvarpsstjórann,“ sagði Pétur við Vísi í vikunni og á við útvarpsstjórann Arnþrúði Karlsdóttur.

„Þetta er grafalvarlegt mál og hefur verið notað gegn okkur í öðrum dómsmálum. Þar hefur verið sagt að ég sé nánast ærulaus þar sem ég hef verið ákærður fyrir hatursorðræðu,“ sagði Pétur sem er fyrsti einstaklingurinn á Íslandi sem hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu.

Fyrr í vikunni tapaði Pétur meiðyrðamáli sem hann höfðaði á hendur konu sem deildi umfjöllun af Sandkassinn.com á Facebook þar sem Pétur var útnefndur „Kúkur mánaðarins“. Taldi héraðsdómur deilingu konunnar á umfjölluninni innan marka tjáningarfrelsisins. Pétur hafði farið fram á fjórar milljónir króna í skaðabætur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×